140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Tvennt öðru fremur einkenndi upphafleg rök stjórnarliða fyrir þessari breytingu. Önnur rökin eru tilvísun í skýrslu þingmannanefndar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem meðal annars kom fram hörð gagnrýni á oddvitaræði, hvar væri skýr ráðherraábyrgð og hvernig eftirliti með undirstofnunum ráðuneyta væri háttað. Þá kom líka fram að nauðsynlegt væri að viðhalda fagþekkingu og reynslu innan ráðuneytanna. Ég tek eftir því að enginn stjórnarliða hér vitnar lengur til þess að þetta séu rök.

Hin ástæðan var sú að þetta væri að norrænni fyrirmynd. Í ágætri samantekt starfshópsins sem vann broskallaskýrsluna er algjörlega afhjúpað að svo er ekki. Það er ekkert samhengi við hina norrænu fyrirmynd. Þetta tvennt sem áður voru helstu rök stjórnarliða fyrir þessum breytingum er ekki lengur. Hringlandahátturinn í að breyta forminu (Forseti hringir.) virðist skipta öllu máli. Af hverju? getum við spurt okkur. Við höfum ekki fengið svör við því þrátt fyrir að við höfum spurt hér endalausra spurninga og hrópað fram í salinn til að spyrja stjórnarliðana: Af hverju, af hverju? (Gripið fram í.)