140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru sokknir svo djúpt í díki málþófsins að þeir hafa ekki haft tíma til að kynna sér staðreyndir málsins, sögu málsins. Það sem hér er á ferðinni er ekkert annað en framhald á þeirri ágætu stefnu sem Samfylkingin hóf í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum 2007. (Gripið fram í: Rugl.) Það kemur í ljós þegar menn skoða síðustu uppstokkanir og sameiningar innan Stjórnarráðsins, sem leiddu til þess að velferðarráðuneytið varð til og innanríkisráðuneytið varð til, að einskiptiskostnaður við það var 225 millj. kr. en á ársgrundvelli sparar þetta 150 millj. kr.

Af því að vísað er í rannsóknarskýrsluna þá er rétt að það komi algerlega skýrt fram að ein af meginniðurstöðum rannsóknarskýrslunnar var að ráðuneytin væru of dreifð og of smá og stofnanir of veikar. Hér er verið að svara því.

Ég tek svo undir það með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að ég hefði viljað sjá svolítið annan brag varðandi umhverfis- og auðlindamálin og vísa til þeirrar hugmyndar sem ég barðist til dæmis fyrir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að Hafró yrði færð undir háskólana. En ég skora á alla þingmenn að samþykkja þessa tillögu vegna þess að hún horfir til heilla fyrir íslenskt samfélag.