140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti að kynna sér sögu sameiningarinnar vegna þess að í þeirri tillögu sem við erum að fara að samþykkja, ef það verður gert, er verið að leggja í húsnæðiskostnað upp á 250 millj. kr. Hagræðingin á að koma í stjórnsýslunni og sýna fordæmið en hver er reynslan? Reynslan er sú að núna er aðalskrifstofa velferðarráðuneytisins, sem átti að sýna sparnað við breytingarnar sem voru gerðar, reiknuð með 46 millj. kr. halla. Það gerðist líka árið 2011 og ekki verður breyting á þessu ári þannig að hagræðingin og sparnaðurinn af þessu er enginn.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði að við værum búin að leggja miklar byrðar á aðrar stofnanir í landinu. Og hvað er verið að gera hér? Það er verið að samþykkja 250 millj. kr. fjárveitingu, sem er ekki í fjárlögum, og eftir nokkra daga verða 28 konur reknar á dyr á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á E-deildinni og allir vistmennirnir þar settir í óvissu og líka aðstandendur. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar. Það eru til nógir peningar í svona gæluverkefni en ekki að hlífa heilbrigðisstofnunum og þeim málaflokkum sem á að hlífa.