140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti sameiningu ráðuneyta. En ég er á móti þeirri forgangsröðun sem sú ríkisstjórn sem nú situr eyðir fjármunum í. Ég tel að betur hefði farið á því að eyða peningunum, meðal annars 250 millj. kr. sem farið hafa í húsnæðiskostnað, í önnur og brýnni verkefni en sameiningu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Ég tel einnig, virðulegur forseti, að hægt hefði verið að efla stjórnsýsluna og sýna skilvirkni og formfestu þar án þess að ráðast í þær breytingar sem eru hér á ráðuneytum. Ég tel sömuleiðis að hæstv. ríkisstjórn hefði átt að reyna að ná samkomulagi um skipan efnahagsmála til framtíðar í stað þess að rokka með þau í þriðja ráðuneytið á fjórum árum, þau málefni sem eru einna brýnust fyrir íslenska þjóð. Ég segi nei.