140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kallar mig ýmist kommúnista eða að ég sé gengin í Samfylkinguna. Ég sat í þingmannanefnd sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kom mjög skýrt fram að nauðsynlegt væri að endurreisa Þjóðhagsstofnun eða stofnun í þeim anda. Ég fagna því mjög að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir Alþingi og hefur það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júlí 2002.

Ég fagna því að það sé orðið að alvörumarkmiði að gera þetta. Þessi stofnun var lögð niður fyrir tilstuðlan ákveðins fyrrverandi forsætisráðherra. Það er kominn tími til að við stokkum upp í stjórnsýslunni og þetta er einn liður í því. Ég hefði þó vissulega viljað ganga lengra, eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varðandi vernd náttúrunnar okkar.