140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:36]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ítreka að það að vega að stjórnsýslu sjávarútvegs og landbúnaðar eins og hér er gert, með því að leggja niður ráðuneyti þessara greina og leggja það inn í önnur ráðuneyti, er í andstöðu við meginþorra þeirra sem vinna í þessum atvinnugreinum. Þetta er eins konar aðför að atvinnulífinu á landsbyggðinni.

Ég vil líka minna á að þessar aðgerðir tengjast beint umsókn okkar og aðlögun að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Ef einhverjum dettur í hug að draga það í efa þá er hér glóðvolgt plagg, drög að viðbrögðum við aðlögunarkröfum Evrópusambandsins í landbúnaði, þannig að kaflinn verði opnaður. Því að eins og þingmenn muna þá vildi Evrópusambandið fá skýrari svör. Þar er einmitt á bls. 5 greint frá því að þessi sameining ráðuneytanna (Forseti hringir.) hafi þegar átt sér stað og lögð upp sem forsenda fyrir því hvernig brugðist skuli við kröfum Evrópusambandsins í aðlögun varðandi landbúnað.

Þetta er hér og mér þykir sárt (Forseti hringir.) að það séu okkar flokksmenn, jafnvel forustumenn í okkar flokki, sem gangi þarna erinda í sambandi við Evrópusambandsumsóknina þvert gegn stefnu flokksins. (Gripið fram í: Hneyksli.)