140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að í atkvæðaskýringu áðan hafi komið í ljós hversu mikilvægt er að hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar taki þátt í umræðunni. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefði tekið þátt í umræðunni þá hefði hann fengið þær upplýsingar sem hann fór ranglega með varðandi kostnaðarþáttinn. Og ég hvet hann — það er svo heppilegt, virðulegi forseti, að við erum með upptöku af þessu öllu og hann getur spilað þetta og hlustað á þetta og lært það hvað hann er að gera hrikalega mikla vitleysu með það að greiða atkvæði með þessu. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, sannleikanum er hver sárreiðastur eins og við heyrum hér.

Hins vegar er áhugavert líka að sjá hvernig björgunarsveitin var fengin til liðs við þetta. Hér var það bara upplýst af hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að það væru einhver orð um Þjóðhagsstofnun, sem engu máli skipta, tengjast þessu ekki neitt, sem fengu bara Hreyfinguna um borð. Hún er að hjálpa núna, björgunarsveitin sjálf, ríkisstjórninni og mun bera ábyrgð á þeim óheyrilega kostnaði sem engu skilar, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Sparar einn og hálfan milljarð á áratug.)