140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[11:57]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Frumvarpið er á þskj. 1253 og 762. mál þingsins.

Mikil breyting hefur orðið á starfsumhverfi sparisjóðanna á síðustu árum og hefur þeim fækkað verulega eins og kunnugt er. Allir stærstu sparisjóðir landsins hafa hætt starfsemi, svo sem Spron, Byr, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Mýrasýslu. Þeir sparisjóðir sem eftir eru hafa unnið hörðum höndum að því að viðhalda rekstrarhæfi sínu og flestir þurft að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Enn sér þó ekki fyrir endann á endurskipulagningu fjárhags og rekstrar þeirra sparisjóða sem eftir eru.

Starfshópur á vegum sparisjóðanna með aðkomu Bankasýslu ríkisins hefur að undanförnu unnið að mati á rekstrarhorfum sparisjóðanna og framtíðarsýn. Hluti af þeirri vinnu hefur falist í því að leggja mat á það með hvaða hætti styrkja megi rekstrargrundvöll þeirra þar sem langflestir ef ekki allir þeirra hafa þörf fyrir að auka eigið fé sitt til að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi.

Hefur starfshópurinn talið að það mundi greiða götu þeirra sparisjóða sem leita eftir auknu eigin fé til að styrkja rekstrarhæfi sitt ef breytingar yrðu gerðar á ákvæðum þess kafla laganna sem hefur að geyma sérákvæði um sparisjóði þannig að takmarkanir á arðgreiðslum yrðu felldar út auk þess sem opnað yrði aftur fyrir þann möguleika að breyta sparisjóði í hlutafélag í stað þess að félagaform þeirra væri bundið við sjálfseignarstofnanir. Einnig hefur starfshópurinn kynnt þá framtíðarsýn að sparisjóðir aðgreini sig frá viðskiptabönkum með tvennum hætti, annars vegar með því að starfsemi þeirra hafi það að markmiði að styrkja og styðja við það samfélag sem þeir starfa í og að þeir takmarki starfsemi sína við kjarnaþjónustu tengdri inn- og útlánum og stundi þannig hvorki fjárfestingarbankastarfsemi né verðbréfaviðskipti.

Á grundvelli framangreindra sjónarmiða hefur þetta frumvarp verið samið. Í því eru lagðar til breytingar á ákvæðum VIII. kafla um fjármálafyrirtæki um sparisjóði, sem eru í meginatriðum þessar:

Starfsheimildir sparisjóða verði takmarkaðar þannig að þeir fáist fyrst og fremst við inn- og útlánastarfsemi.

Rekstur sparisjóðs getur verið í höndum hlutafélags eða sjálfseignarstofnunar.

Sparisjóðir geta breytt rekstrarformi sínu úr því að vera sjálfseignarstofnun yfir í hlutafélag.

Til þess að fjármálafyrirtæki geti talist sparisjóður skal það hafa skilgreind samfélagsleg markmið í samþykktum sínum og ráðstafa árlega að lágmarki tilteknum hundraðshluta tekna sinna til þeirra málefna.

Möguleikar sparisjóða sem eru sjálfseignarstofnanir til samruna og yfirtöku eru auknir og skýrðir.

Samkvæmt núgildandi lögum um fjármálafyrirtæki er hugtakið „sparisjóður“ heiti á rekstrarformi, þ.e. sérstakri tegund sjálfseignarstofnunar sem stundar viðskiptabankastarfsemi. Í frumvarpi þessu er hins vegar gert ráð fyrir að hugtakið „sparisjóður“ verði samheiti fyrir tiltekna gerð fjármálafyrirtækja sem hafa afmarkaðar starfsheimildir og leggja áherslu á samfélagsleg verkefni og samfélagslegt hlutverk. Samkvæmt ákvæðinu þarf fjármálafyrirtæki að uppfylla þrjú skilyrði til að mega kalla sig sparisjóð:

Það þarf að skilgreina í samþykktum sínum samfélagslegt hlutverk sitt og afmarka það við tiltekið landsvæði.

Það þarf að ráðstafa að lágmarki sem svarar 5% af hagnaði til samfélagslegra verkefna og

það hafi fengið starfsleyfi sem sparisjóður.

Þar sem í frumvarpinu er lagt til að sparisjóður geti verið hvort tveggja hlutafélag og sjálfseignarstofnun er framsetningu VIII. kafla breytt þannig að lagt er til að í A-hluta hans séu ákvæði sem eigi við um sparisjóði án tillits til rekstrarforms, en í B-hluta kaflans eru tekin saman þau sérákvæði sem gilda um sjálfseignarstofnanir sem eru sparisjóðir. Nánar er vikið að þessari uppskiptingu kaflans í athugasemdum með frumvarpinu.

Hafa ber í huga að sjálfseignarstofnun sem er sparisjóður er sérstakt form sjálfseignarstofnunar sem byggir alfarið á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og á sér ekki samsvörun við aðrar sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnustarfsemi.

Þá vil ég að lokum geta þess að í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að bráðabirgðaákvæði VI með lögunum gildi áfram út árið 2013. Ákvæðið, sem upphaflega var að finna í neyðarlögunum frá því í október 2008, er óskylt meginefni frumvarpsins og var því upphaflega ætlaður skammur lífdagi. Þróun sambærilegra ákvæða í Evrópurétti hefur hins vegar ekki verið jafn hröð og ráð var fyrir gert og hefur því reynst nauðsynlegt að framlengja það, síðast með lögum nr. 78/2011.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu.