140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að með þessu frumvarpi á að tryggja rekstrargrundvöll sparisjóðakerfisins. Ég óttast hins vegar að slíkar lagabreytingar, sem fela í sér fjölbreytni í rekstrarformi og ákvæði um að sparisjóðir þurfi að leggja ákveðið hlutfall af hagnaði sínum í samfélagsleg verkefni, dugi einfaldlega ekki til. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að nýta 21. gr. laga um sparisjóði sem heimilar tengda starfsemi, þ.e. að heimila sparisjóðunum meðal annars að taka að sér sölu trygginga og póstþjónustu. Einkaleyfi Íslandspósts á dreifingu bréfa sem eru allt að 500 g rennur út á næsta ári. Ég gæti séð slíka starfsemi renna frekari stoðum undir sparisjóðakerfi ef sparisjóðir úti á landi mundu bjóða í þetta einkaleyfi þegar það rennur út þannig að þeir veiti ekki aðeins fjármálaþjónustu, heldur líka póstþjónustu. Ég held að slík leið mundi jafnvel tryggja að þess háttar þjónusta væri í boði á fleiri stöðum.

Auk þess tel ég nauðsynlegt að við afnemum stimpilgjöldin í ljósi þess að fjölmargir tryggir viðskiptavinir sparisjóðanna voru fluttir nauðungarflutningum úr sparisjóðakerfinu í banka sem eru í eigu vogunarsjóða og hafa þar af leiðandi ekkert val um að fara í sparisjóðakerfið aftur nema þeir hafi efni á því að greiða (Forseti hringir.) stimpilgjöld og annan uppgreiðslukostnað.