140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem fagna því að reynt sé að skýra og bæta úr því umhverfi sem sparisjóðirnir eiga að starfa í. Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan að ég sakna þess að við höfum ekki fengið skýra stefnu eða sýn frá stjórnvöldum um hvernig þau hyggjast fara með sparisjóðakerfið, þ.e. ef það á að endurreisa það hvernig það yrði gert. Ég vil benda á að í tillögum sem þingflokkur framsóknarmanna lagði fram á Alþingi um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og hvernig megi snúa vörn í sókn, er lagt til að sparisjóðakerfinu verði tryggður sess og það verði gert með því að svæðisbundnum sparisjóðum verði komið á fót og þeir efldir. Ríkisvaldið hefur það þó nokkuð mikið í hendi sér hvernig að því verður staðið og við hljótum að kalla eftir því að ríkisvaldið beiti þeim ráðum sem það hefur til að tryggja að sparisjóðirnir starfi áfram hringinn í kringum landið og að þeim verði einnig gert kleift að keppa á höfuðborgarsvæðinu við hina venjubundnu fjármálastofnanir, ef má orða það þannig, stóru bankana.

Ég tek undir með þeim sem gagnrýna eða vara við því að þegar ríkið selur sinn eignarhlut eða nýtir hann til að — við skulum vona að ríkið muni nýta eignarhlutinn til að koma sparisjóðakerfinu á fætur aftur, í það minnsta að reynt verði með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þeir renni inn í hina þrjá stóru viðskiptabanka á Íslandi. Það er mjög hollt og gott að hafa sparisjóðakerfið við hliðina á þeim stofnunum.

Ég spurði áðan um samvinnufélagsformið og hér kom fram ákveðin skýring á því, varðandi vandræðin með að uppfylla kröfur um eiginfjárhlutfall. Það kunna að vera einhverjar reglur í kringum það, en ég vil hvetja til að það mál verði skoðað, þó svo að það kunni að leiða til víðtækari skoðunar og jafnvel að það þurfi að gera breytingar í framhaldinu. Það þarf að skoða þær reglur sem við störfum eftir, Evrópureglur og annað, og hvort einhvers staðar séu leiðir til að nýta þetta form. Það hefur gefist vel í margs konar annarri starfsemi, ég nefni húsnæðissamvinnufélög og rekstrarfélög ýmiss konar, þannig að formið er vel þekkt og í sjálfu sér mjög gott til margra hluta.

Ég tek ekki undir þegar menn tala um sparisjóði og vogunarsjóði með neikvæðum formerkjum í sömu setningunni, að allir hafi verið í því. Það er vitanlega ekki þannig. Að sjálfsögðu tóku einhverjir þátt í slíkum æfingum, en alls ekki allir sparisjóðir á landinu. Það er heldur ekki nein rök að mínu viti — og ég er ekki að segja að hæstv. ráðherra hafi sagt það — fyrir því að endurreisa ekki sparisjóðakerfið að sparisjóðirnir hafi tekið á einhverjum tímapunkti þátt í slíku. Ég tek fram að ég veit að ráðherra sagði það ekki, svo það liggi alveg fyrir, en ef einhverjir hafa slíkar hugmyndir er það ekki réttmætt að mínu viti.

Við sem búum úti á landi höfum séð það, hringinn í kringum landið, að fjármálastofnanir, viðskiptabankarnir svokölluðu, hafa neitað að setja fjármuni eða lána fé — það kunna alveg að vera eðlilegar skýringar á því, ég er ekki að segja það — kannski neitað að taka einhverja áhættu, það má orða það þannig, neitað að lána til framkvæmda víða út um land, jafnvel bara til íbúðarkaupa, vegna þess að það sé svo varasamt og erfitt úti á landi. En þá hafa sparisjóðirnir verið til staðar, sparisjóðir úti á landi. Þeir hafa verið burðarásinn í því að fólk hefur getað byggt sér húsnæði og rekið fyrirtæki sín víða um land. Þessir svokölluðu stóru bankar sem tóku þátt í því af miklum krafti að setja Ísland á höfuðið, sérstaklega á suðvesturhorninu, sáu sér ekki færi á því eða töldu ekki ástæðu til að taka mikinn þátt í uppbyggingunni úti á landi. Það er mjög slæmt. Síðan hefur reyndar komið í ljós að líklega eru þeir sem standa best í skilum þeir sem ekki voru í viðskiptum við þessa aðila. En það er annað mál.

Þarna skipta sparisjóðirnir miklu máli. Þess vegna viljum við mjög mörg leggja mikið á okkur til að þetta kerfi sé endurvakið og styrkt með einhverjum hætti. Það getur verið mjög skynsamlegt að horfa til einhvers konar svæðaskiptingar, að horfa á landið sem nokkur svæði. Ég kann ekki að segja hvernig þau ættu að vera nákvæmlega en að innan hvers svæðis þyrfti að vera grundvöllur til að reka öflugan sparisjóð. Á hverju svæði þarf að sjálfsögðu að vera næg starfsemi eða svæðið nógu stórt til að bera uppi bæði innlán og útlán og allt sem því fylgir.

Þetta er aðferð sem manni finnst að ríkisvaldið, ef áhugi er hjá stjórnarflokkunum að endurreisa sparisjóðakerfið, eigi að skoða til að hleypa svolitlu lífi í þetta og einhenda sér í að teikna upp þær tillögur sem eru uppi á borðinu. Um allt land eru áhugasamir einstaklingar, sveitarfélög og fyrirtæki sem vilja taka þátt í slíku, því reynslan í langflestum tilfellum er mjög góð.

Það er líka mikilvægt að halda því til haga sem er ágætlega gert í þessu frumvarpi, í því sem ég hef náð að lesa, ég viðurkenni að ég er ekki búinn að lúslesa þetta, en það er sú áhersla sem lögð er á hið samfélagslega hlutverk sparisjóðanna. Sparisjóðirnir hafa þar sem ég þekki til tekið það hlutverk sitt að taka þátt í samfélaginu mjög alvarlega, hvort sem er í menningarlegu tilliti, varðandi æskulýðsstörf eða hitt og þetta sem sparisjóðirnir hafa komið að í gegnum tíðina. Þessi verkefni þurfa að fá að lifa og hér er verið að setja ramma utan um þetta, alla vega stærðirnar. Í mörgum byggðarlögum hafa þessi verkefni og þetta hlutverk sparisjóðanna skipt sköpum fyrir samfélagslega uppbyggingu. Það er ekki nóg með að þessar stofnanir skipti máli varðandi efnahagslega uppbyggingu, með tilliti til heimila og fyrirtækja, heldur líka fyrir aðra samfélagslega uppbyggingu sem lýtur að menningarmálum, æskulýðsmálum o.s.frv., eins og ég nefndi áðan.

Þetta er gríðarlega mikilvægt hlutverk. Til þess að sparisjóðirnir geti rækt þetta hlutverk sitt þurfa þeir að sjálfsögðu að vera það öflugir að reksturinn gangi, það er óþarfi að fjölyrða um það.

Þetta frumvarp er eflaust skref í rétta átt, mér sýnist það. Það sem við erum hins vegar að kalla eftir er skýr stefna, hvert stjórnvöld vilja fara í þessum málum. Stjórnvöld eiga að stærstum hluta Landsbankann eins og allir vita, hluti í öðrum fjármálastofnunum, og hafa mörg tæki og tól til að hrinda í framkvæmd því að byggja upp þetta kerfi okkar. Við hljótum því að kalla eftir að skýr stefna verði mótuð hið fyrsta og svör fari að berast. Mér er að minnsta kosti kunnugt um að áhugasamir aðilar víða um land hafa rætt við stjórnvöld um hvernig megi hleypa klárnum á skeið í sparisjóðamálum, en það vantar kannski aðeins upp á að stjórnvöld gefi boltann til baka og segi hvernig þau sjái þetta fyrir sér.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég held að ég hafi komið skoðun minni til skila við þessa umræðu. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt eins og allir til að hafa skoðun á málinu á síðari stigum, eftir því sem endanlegt frumvarp mun líta út og hvort ástæða sé til að bæta inn í það o.s.frv. Ég vona að efnahags- og viðskiptanefnd beiti sér af krafti fyrir því að sparisjóðirnir verði gerðir að því afli sem við óskum eftir að þeir séu í landinu.