140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[13:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér ný lög um sparisjóði. Eins og kom fram í andsvörum áðan er ekki um að ræða neinar stórkostlegar breytingar. Það urðu ákveðin stór mistök með sparisjóðina í hruninu, eða fram kom ákveðin veila. Ein veilan var sú að þeir áttu mjög mikið í örfáum mjög stórum hlutafélögum, þau hétu Exista og Kaupþing, og áhætta þeirra var gífurlega mikil af því þeir áttu bara í tveimur hlutafélögum. Ég skil ekki enn af hverju Fjármálaeftirlitið heimilaði þeim að taka þá áhættu, af því að þetta voru svo félagslegar stofnanir.

Síðan gerðist annað, sem var kannski öllu verra, að einstaklingar fengu lán til kaupa á stofnbréfum í óskaplega háum upphæðum. Þeim var sagt fjárfestingin væri gulltryggð. Stofnbréf væru eitthvað sem ekki mundi hverfa og væri mjög tryggt og menn treystu því. Talað var um að þetta væri mjög arðbært og sagt að þetta væri hagur sveitarinnar. Oft og tíðum voru það sparisjóðir úti á landi sem fóru þessa leið, en einnig í Reykjavík. Það er sem sagt búið að laga fyrri endann, með áhættutökuna í hlutafélögum, þar sem þeir mega núna bara stunda innlán og útlán, það er ágætt, en ekki er búið að banna þeim að fjárfesta í skuldabréfum sem er ígildi innlána og heldur ekki búið að banna þeim að leggja peninga inn í aðra banka sem getur svo myndað hring eins og ég gat um áðan.

Vandamálið var náttúrlega þessir hringferlar peninga sem ég hef margoft bent á og voru aðallega hjá hlutafélögum þar sem peningarnir fóru í hring eftir hring í mismunandi löngum keðjum og ýmist í formi hlutabréfakaupa eða lánveitinga. Hjá sparisjóðunum var þetta blanda og ekkert mjög löng keðja. Einhver sparisjóður lagði inn í einhvern banka, sá banki lánaði einhverjum einstaklingi til kaupa á stofnbréfum, þannig að peningurinn fór inn í sparisjóðinn og hafði þá farið í hring. Ef einstaklingur vildi ekki taka áhættu gat hann stofnað hlutafélag um þetta, þá gat hlutafélagið keypt stofnbréfið og verið stofnfjáreigandi. Þá voru komnir fjórir liðir í þessa keðju.

Þetta er það sem maður sá beint út úr hruninu og í leiðinni, herra forseti, ætla ég að geta þess að ég hef flutt frumvarp um að það varði refsingu að stuðla að slíku hringferli. Ég vildi gjarnan að menn skoðuðu það. Ég hef áður flutt frumvarp um gegnsæ hlutafélög, en það hefur þann ókost að það gildir bara á Íslandi. Þau hlutafélög gætu ekki verið í eigu erlendra aðila, gætu ekki leitað að erlendum fjárfestum vegna þess að erlendu félögin geta ekki verið gegnsæ. Þetta er vandi sem á við um allan heim. Jafnt í Þýskalandi, Japan, Bandaríkjunum, út um allan heim, er þetta ferli með hringferla í fullum gangi og er í raun prentun á peningum. Einstaklingar eru að prenta peninga, sem er ekki gott.

Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum það af hverju þetta var svona. Af því að ég tengist þessu máli — ég gerði meira að segja einu sinni samning, ég var í stjórn Spron eftir dálítið ævintýralegar kosningar og var stjórnarformaður í fjórar vikur, þökk sé hv. alþingismönnum — þá þekki ég það nokkuð vel. Ég vil taka það fram til að byrja með að ég greiddi atkvæði gegn öllum breytingum á sparisjóðalöggjöfinni þegar breyta átti þeim í hlutafélag, af því ég vissi hvað var á bak við það, nokkuð sem var ekki beint heppilegt og mundi koma í ljós.

Það sem gerðist var að á ákveðnum tímapunkti ákvað stjórn Spron að selja Spron til Kaupþings. Kaupþing ætlaði að greiða, að mig minnir, sjöfalt stofnverð, 3 milljarða til stofnfjáreigenda og 6 milljarða ætluðu þeir að greiða fyrir þetta heilaga fé, þennan stofnfjársjóð, það átti að vera í peningum. Stofnfjársjóðurinn átti að selja öll stofnbréfin sín í Spron, þessi samfélagssjóður átti að selja öll bréfin sín í Spron, og fá fyrir það íslenska peninga og mynda 6 milljarða sjóð sem var ætlað að fara í að styrkja menningu og listir og fatlaða og öryrkja og á því sviði. Meira að segja var búið að skipa stjórn yfir þennan sjóð. Svo gerist það að Alþingi samþykkir lög, kvöldið fyrir þennan stofnfjáreigendafund, þar sem segir að samfélagssjóðnum skuli stýrt af opinberum starfsmönnum, þ.e. starfsmönnum sveitarfélaga og ríkisins. Þá var ekki lengur hægt að selja stofnbréfin sem þessi sjóður átti í Spron, þá féll þessi samningur niður. Þarna samþykkti Alþingi lög sem beindust gegn einum ákveðnum samningi einkaaðila.

Þessi sjóður varð ekki til, hann er ekki til í dag og Spron er farið á hausinn, það má segja að hv. þingmenn geti þakkað sér það, meiri hluti þeirra, að þarna hvarf 6 milljarða sjóður sem hugsanlega væri til staðar í dag og mjög líklega, fyrir utan það að Spron hefði farið inn í Kaupþing og vandamálin með þau fyrirtæki sem eru í gangi, vandamál lántakenda hjá þeim aðila sem tók við rekstri Spron, öll þau vandamál væru ekki til staðar. En það er önnur saga.

Ég held að Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður, hafi orðað það sem svo að hér væru 63 heilar lagðir í bleyti til að finna góðar lausnir. Þegar þeir væru búnir að samþykkja lög færu svo 300 þúsund heilar í gang til að reyna að komast fram hjá þeim. Það sem gerðist í þessu máli var það að menn fundu leið fram hjá þessu, þessi samfélagssjóður í Spron átti 89% af eignum Spron, hann hefði farið með 89% af stofnfénu í Spron og hlutafénu, þegar það var hlutafjárvætt, en þá datt mönnum í hug að minnka þennan sjóð hlutfallslega. Hvernig gera menn það? Þeir seldu stofnbréf í óskaplega stórum slumpum. Þeir minnkuðu sjóðinn með því að selja stofnfé fyrir utan hann. Hvernig gerðu þeir það? Þeir gerðu það einmitt með svona hringrás; Spron lagði inn í einhvern banka — ég ætla ekki að nefna það neitt sérstaklega því ég veit það ekki nákvæmlega en það mun koma í ljós — og sá banki lánaði til stofnfjáreigenda í Spron til að kaupa stofnfé í Spron. Þetta voru ekki einhverjir hundraðþúsundkallar eða milljónkallar, þetta voru milljarðar sem fóru svona í hring. Þannig minnkaði samfélagssjóðurinn, úr því að vera 89% af eignum Spron niður í að vera 15%, og hætti að skipta máli við hlutafjárvæðinguna. Eigið fé Spron óx við þessa hringferla fjár við það að selja nýtt stofnfé. Svo var Spron hlutafjárvætt, og svo þekkjum við söguna af því að þar sem aðaleignin var Kaupþing og Exista og það fé náði ekki sæmilegri ávöxtun sem kom þarna inn í gífurlegu magni þá varð hrunið mjög stórt.

Á vissan hátt má segja að þetta sé sök alþingismanna með því að breyta þessum samfélagssjóði í þetta form, af því að þá fóru menn að fara í þessar miklu stofnfjáraukningar. Þær voru úti á landi í stórum stíl og gengu allar út á það að minnka samfélagssjóðinn og auka stofnféð fyrir utan hann. — Þetta er svona saga sparisjóðanna í hnotskurn.

Eftirleikurinn var mjög dapurlegur vegna þess að til dæmis Sparisjóðabankinn, sem lengi vel hjarði, var í gangi, hann var eina lánalínan til útlanda sem Íslendingar höfðu sem var með gamalli kennitölu. Menn áttu virkilega að standa vörð um hann. Búið var að gera samkomulag við kröfuhafa um að taka hann yfir. Allt í einu er hann settur í gjaldþrot og þessi eina lánalína fór. Kröfuhafarnir áttu að sjálfsögðu að taka hann yfir og reka hann áfram, þá hefðu Íslendingar haft eina línu til útlanda.

Svo gerðist það að Spron var sett á hausinn. Mér skilst að þar hafi líka verið komið samkomulag um að kröfuhafarnir tækju hann yfir og rækju hann. Ég fullyrði að verðmæti Spron, „goodwillið“, sem fólst í starfsfólkinu, var 5 milljarða virði. Óhemjufé tapaðist við það að Spron fór á hausinn, vegna þess að Spron og sparisjóðirnir almennt höfðu mjög góða ímynd hjá almenningi. Þeir sinntu litla sparifjáreigandanum. Þeir sinntu litla lántakandanum. Þeir vor mjög nálægt fólkinu. Mér fannst það virkilega dapurlegt þegar Spron fór á hausinn. Það var virkilega sorglegt. Allt í lagi að stofnfjáreigendur tapi sínu, því sem þeir höfðu spilað með, en starfsfólkið átti þetta ekki skilið. Eftirleikurinn hefur að mörgu leyti verið mjög dapurlegur og misráðinn.

Nú veit ég ekki hvort einhver harka hefur verið milli kröfuhafa og ríkisvaldsins, hæstv. ríkisstjórnar, ég veit það ekki, en ég held að menn hafi gert nokkuð stór mistök þarna.

Og nú eru menn sem sagt að reyna að bjarga því sem bjargað verður með sparisjóðina og ég held að þeir hafi hlutverk. Vandinn er sá hvernig við fáum fólk til að kaupa aftur stofnbréf eða hlutabréf í sparisjóði? Hvaða trygging er fyrir því að sama ferlið fari ekki í gang aftur? Þetta er nákvæmlega sami vandinn og ég lýsti með hlutafélög á Íslandi. Það er engin trygging fyrir því að svona hringrás peninga fari ekki í gang aftur og skemmi fyrir litlu hluthöfunum og stofnfjáreigendunum.

Hverjir voru það sem töpuðu mest á hruninu, herra forseti? Það voru hlutafjáreigendur, venjulegt fólk sem átti spariféð sitt í hlutabréfum. Það voru eitthvað 55.000 manns sem töpuðu í tólf fyrirtækjum skráðum fyrirtækjum — 55.000 manns sem töpuðu 80 milljörðum bara í hlutabréfum. Síðan koma sparisjóðirnir til viðbótar. Ég hugsa að það hafi verið um 20 milljarðar til viðbótar, ég þekki ekki þá tölu, ég gat ekki fengið hana. Þetta er bara venjulegt fólk sem keypti stofnfé eða hlutabréf fyrir spariféð sitt, sumir reyndar með lánum eins og hjá sparisjóðunum, en svo var líka fjöldi manns sem átti stofnbréf frá gamalli tíð sem hvarf líka í þessum darraðardansi.

Ekki er búið að loka á það að svona hringrás geti menn leikið sér að í dag á kostnað minni hluthafa og minni stofnfjáreigenda. Meðan það er ekki lagað get ég ekki ráðlagt nokkrum manni að kaupa stofnbréf eða hlutabréf. Ég sé ekki að núverandi hæstv. ríkisstjórn geri neitt í því. Ég er búinn að flytja um þetta mörg frumvörp, um gagnsæ hlutafélög. Ég er búinn að flytja frumvarp sem liggur fyrir Alþingi og ég vona að menn líti alla vega á það og sendi til umsagnar, þar sem ég legg til að svona hringferlapeningar verði refsiverðir.

En þetta er ekki íslenskt vandamál. Þetta er alþjóðlegt vandamál og þess vegna er svo erfitt að eiga við það. Fulltrúar okkar á alþjóðavettvangi, utanríkisráðherra og fleiri, ættu að sinna því að kynna þetta vandamál um allan heim, fá lausn á því, banna það, þannig að menn læri þó alla vega af hruninu. Hrunið á Íslandi var þess eðlis að eigið fé íslenskra hlutafélaga, sem var 7 þúsund milljarðar í árslok 2007 — það var ríkisskattstjóri sem upplýsti um þetta á fundi hjá löggiltum endurskoðendum — sem sagt fimmföld þjóðarframleiðsla. Ári seinna í árslok 2008 var það 50 milljarðar. Það bara hvarf. Núllföld þjóðarframleiðsla. Ári seinna í árslok 2009 var það mínus 1.500 milljarðar, þ.e. mínus einföld þjóðarframleiðsla. Maður spyr sig: Hvað varð um þessa peninga? Hvar var þessi eign? Herra forseti. Þessi eign var aldrei til. Hún var aldrei nokkurn tímann til vegna þessara hringferla.

Þetta finnst mér að við þurfum að laga ef við ætlum yfirleitt að byggja upp traust á hlutabréfum eða stofnbréfum í félögum sem stunda rekstur á Íslandi, heiðarlegan og góðan rekstur í sjávarútvegi, í landbúnaði, í ferðaþjónustu, eða í hverju sem er, þá verðum við að laga þetta. Það er hinum almenna hluthafa sem blæðir — það er alltaf honum sem blæðir — það er hinum almenna stofnfjáreiganda sem blæðir. Og að láta sig dreyma um að einhver fari að fjárfesta í stofnbréfum og byggja upp sparisjóð, sem er mjög nauðsynlegt, án þess að þetta sé lagað — ég held að sá draumur endi í martröð.