140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[13:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nánar tiltekið sparisjóðina. Þetta frumvarp má í meginatriðum segja að felist í því að sparisjóðir aðgreini sig frá viðskiptabönkum með tvennum hætti, annars vegar með því að starfsemi þeirra hafi það markmið að styrkja og styðja við það samfélag sem þeir starfa í og hins vegar að þeir takmarki starfsemi sína við kjarnaþjónustu tengda inn- og útlánum og stundi þannig hvorki fjárfestingarbankastarfsemi né verðbréfaviðskipti. Á grundvelli þessara sjónarmiða verða starfsheimildir sparisjóða takmarkaðar þannig að þeir fáist fyrst og fremst við inn- og útlán, þ.e. þeir taki við innlánum frá viðskiptavinum sínum og láni út aftur til þeirra sem þess þurfa. Það er því óhætt að segja að starfsemin verði takmörkuð við þessa grundvallarhugmynd um bankastarfsemi eða hina upphaflegu hugmynd um bankastarfsemi.

Jafnframt er hægt að velja rekstrarform á sparisjóð þannig að hann verði annaðhvort í höndum hlutafélags eða sjálfseignarstofnunar. Sjálfseignarstofnun er gamla fyrirkomulagið með stofnfjárbréf sem við þekkjum vel úr sparisjóðakerfinu en það á hins vegar að útvíkka til að rekstrarformið verði sveigjanlegra og hægt sé að reka sparisjóði meira til hagnaðar fyrir hluthafa. Frumhlutverk gömlu sparisjóðanna verður því ekki eingöngu viðhaft, þ.e. að þeir sem kaupa stofnfjárbréf leggi raunverulega til fjármögnun án þess að fá mikið í staðinn nema væntanlega ánægjuna af því að geta einhvern veginn orðið samfélagi sínu að liði.

Til að fjármálafyrirtæki geti talist sparisjóður er sú nýbreytni hérna að skilgreina þarf sérstaklega samfélagsleg markmið í samþykktum sjóðsins og ráðstafa þarf árlega tilteknum hundraðshluta hagnaðar eða tekna, ég held reyndar að það sé hagnaður þó að það standi tekna í greinargerðinni, til samfélagsins. Jafnframt eru möguleikar sparisjóða sem eru sjálfseignarstofnanir til samruna og yfirtöku auknar og skýrðar í þessum lögum.

Almennt er hægt að segja um sparisjóðakerfið að það megi sannarlega muna fífil sinn fegurri. Stærstu og öflugustu sjóðirnir fóru allir á höfuðið í hinu mikla hruni, þar ber hæst Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Spron, sem var öflug stofnun á sínum tíma, Byr, Sparisjóð Keflavíkur og Sparisjóð Mýrasýslu, jafnframt voru minni sjóðir eins og Afl sparisjóður og Sparisjóður Ólafsfjarðar. Einhverjir sparisjóðir eru enn við lýði en sparisjóðakerfið hefur minnkað gríðarlega mikið, bæði að krónutölu og í hlutfalli við viðskiptabankakerfið allt saman. Við sjáum t.d. að um síðustu áramót var efnahagsreikningur viðskiptabankakerfisins í kringum 3 þús. milljarða og þar af voru heildareignir sparisjóðanna einungis 60 milljarðar, eða 2% af heildareignum. Það er óhætt að segja að þetta kerfi megi muna betri tíð.

Ríkið hefur komið inn í flesta sparisjóði. Þeir fimm sjóðir sem ríkissjóður á hlut í eru Sparisjóður Bolungarvíkur, Vestmannaeyja, Svarfdæla, Norðfjarðar og Þórshafnar. Ríkið á mismikið í þessum sjóðum, allt frá því að eiga í kringum 90% í Sparisjóði Bolungarvíkur og Sparisjóði Svarfdæla niður í það að eiga tæpan helming í Sparisjóði Norðfjarðar og svo eitthvað aðeins meira en helming í Sparisjóði Vestmannaeyja. Þeir fimm sjóðir sem ríkið á hlut í nema samtals um helmingi af sparisjóðakerfinu. Það er ljóst að til þess að ríkið geti á hagkvæman hátt losað sig út úr þessum fjármálastofnunum, þessum sparisjóðum, er hlutafjárformið æskilegt vegna þess að það einfaldar mjög sölu á sjóðunum.

Svona heilt yfir held ég að þetta frumvarp um sparisjóðina horfi til framfara. Ég held að það sé ekkert sem mæli á móti því að sparisjóðir starfi í nærsamfélagi sínu. Það er t.d. auðvelt að sjá fyrir sér einn sparisjóð á Austurlandi sem gæti heitið Sparisjóður Austurlands og þjónað heimilum og smáfyrirtækjum. Það er ljóst að sparisjóðir geta tæpast nokkurn tímann haft bolmagn til að vera með stór og jafnvel millistór atvinnufyrirtæki í viðskiptum. Til þess eru umsvif stórra og meðalstórra fyrirtækja það mikil að aldrei næðist að fjármagna þau með innlánum og því hæpið að hægt væri að fara út í hagkvæma fjármögnun á sparisjóði með skuldafjárútboði eða einhverju slíku.

Ég verð jafnframt að segja að mér hugnast ágætlega að fjármálastofnanir sem eru bundnar við eitthvert afmarkað svæði séu með skilgreind samfélagsmarkmið. Mér hugnast sú hugmynd ágætlega. Ég held aftur á móti að stóru viðskiptabankarnir eigi alls ekki að fara út í þvílíkar æfingar. Þeir eiga að vera hafnir yfir landsvæði og hafnir yfir það að þurfa að meta einhverja einangraða, staðbundna og samfélagslega hagsmuni.

Ég er ánægður með annað í þessu frumvarpi. Það er að skýrt er kveðið á um að sparisjóður skuli ekki stunda fjárfestingarbankastarfsemi. Ég er almennt þeirrar skoðunar eftir áfallið sem heimurinn hefur orðið fyrir í sambandi við fjármálakerfið að áhættusækin fjárfestingarbankastarfsemi og hefðbundin viðskiptabankastarfsemi þar sem innlán eru tryggð eigi ekki samleið. Fjárfestingarbankastarfsemi er í eðli sínu áhættusækin og hún á að vera það, verður að vera það, en að áhættan geti orðið það mikil að hún rúlli yfir í viðskiptabanka sem eru með tryggða innlánsreikninga finnst mér ekki hægt. Ísland er skólabókardæmi um þetta þar sem stóru bankarnir þrír fóru hér á höfuðið í hruninu. Fjárfestingarbankastarfsemi þeirra leiddi þá á þá braut sem leiddi síðan til gjaldþrots vegna þess að það var ekki lengur hægt að fjármagna hinn stóra efnahagsreikning. Þrátt fyrir að fólk deili kannski um hvort þetta hafi verið eiginfjárvandamál eða lausafjárvandamál er mín skoðun sú að þetta hafi fyrst og fremst verið lausafjárvandamál. Ef ekki hefði komið til að þeir gætu ekki fjármagnað sig og ef ekki hefði komið til fjármálakreppan hefðu þeir ekki þurft að fara á höfuðið.

Ég vil lýsa því yfir aftur að ég er ánægður með að lokað skuli vera á fjárfestingarbankastarfsemi og ég er þeirrar skoðunar að fara eigi einhverja slíka leið líka með núverandi viðskiptabanka.

Það verður líka að viðurkenna mikilvægt hlutverk fjárfestingarbanka. Ég held að þeir sem vilja stunda fjárfestingarbankastarfsemi eigi að gera það á eigin reikning, þ.e. á eigin áhættu. Þeim á að vera frjálst að setja hlutafé í fjárfestingarbanka og hætta því hlutafé en það þarf að vera á hreinu hver starfsemin er. Það þarf að vera á hreinu hversu áhættusækin hún sé og það þarf að vera á hreinu að hún rúlli hvorki yfir á skattborgarana né valdi slíkum kerfislægum titringi í fjármálakerfinu að það geti leitt til falls viðskiptabanka eða fjármálalegs óstöðugleika í hagkerfinu.

Ég tel þetta frumvarp hið besta mál en eins og vanalega, því að þetta er bara 1. umr. og ég er ekki búinn að lesa þetta nákvæmlega eða heyra umsagnir, þá áskil ég mér náttúrlega rétt til að gera athugasemdir þegar ég er búinn að skoða þetta betur, en úr fjarlægð get ég sagt fyrir mig að þetta hljómar alls ekki illa.