140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:30]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar gagnlega og yfirgripsmikla umræðu um það frumvarp sem hér er lagt fram og ætla freista þess að staldra við nokkur af þeim atriðum sem komu fram í umræðunni.

Í fyrsta lagi var dálítið fjallað um stöðuna að því er varðar starfsheimildir og rekstrarform, það er kannski það sem var aðeins rætt í byrjun. Í núverandi löggjöf er enginn munur á starfsheimildum banka og sparisjóða, heldur liggur munurinn aðeins í rekstrarforminu. Í frumvarpinu er lögð til breyting að því er varðar starfsheimildirnar og markmiðið er, eins og fram hefur komið, að draga úr áhætturekstri. Í því er auðvitað mikilvægast, í allri þeirri umræðu sem hér er uppi og væntanlega líka í umfjöllun nefndarinnar, að halda því til haga að það er starfshópur á vegum sparisjóðanna sjálfra sem leggur til þessar breytingar og þann útgangspunkt sem hér hefur verið reifaður.

Það er auðvitað ekki raunhæft, enda held ég að enginn tali fyrir því, að ætla að viðhalda óbreyttu ástandi í þessu. Það þarf að styrkja þessar einingar og án rekstrarhagnaðar lifa hvorki sparisjóðir né aðrar fjármálastofnanir og af þeim sökum þarf að styðja sérstaklega með lagaumgerðinni við rekstrarforsendur sparisjóðanna og til þess er leikurinn gerður. Eins og jafnframt hefur komið fram í umræðunni geta sparisjóðir í sjálfu sér ekki verið kjölfesta úti á landi, heldur miklu frekar mikilvægir til að tryggja grundvallarfjármálaþjónustu við almenning en tæplega að standa í viðskiptum við meðalstór eða stór fyrirtæki eins og kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni.

Varðandi umræðuna um það hvort stjórnvöld eigi að hafa einhverja sérstaka stefnu í sparisjóðamálum eða jafnvel gagnvart bönkum þá er það spurning sem ég ætla að leyfa að lifa hér og kannski fremur að halda því til haga að það er mikilvægt að lagaumgjörðin sé skýr og að grunnurinn sé þannig að við það sé unað.

Hv. þm. Pétur Blöndal ræddi aðeins um frekari takmörkun starfsheimilda á meðan hv. þm. Lilja Mósesdóttir hafði áhyggjur af of þröngum starfsheimildum. Þessi sjónarmið endurspegla það kannski að hér er verið að freista þess að sigla skynsamlegan meðalveg í þessu flókna efni og tryggja að rekstrarumhverfið sé skýrt til langrar framtíðar. Þar að auki er vafamál að frekari takmörkun á starfsheimildum samræmist yfir höfuð tilskipunum um starfsemi fjármálafyrirtækja þó að almennar reglur um viðskipti sparisjóða við önnur fjármálafyrirtæki séu auðvitað þær sömu og fjármálafyrirtækja sín á milli, eins og kom líka fram í fyrra andsvari.

Varðandi upprifjun hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í lokin þá er ágætt að halda sögulegu samhengi til haga í þessum efnum eins og öðrum og hefur ekki alltaf verið eftirspurn eftir sögulegu samhengi frá hv. þingmanni að því er varðar pólitíska þróun mála hér á landi undanfarin ár og áratugi en það er gott að heyra slíkan vilja til samhengishugsunar úr þeim ranni. En um lögin frá 2009 er það að segja að það sem var mikilvægt í þeim lögum var að staða stofnfjáreigenda var skýrð. Það var gríðarlega mikilvægur ávinningur frá því sem áður var og verður líka að halda því til haga að sú staða er óbreytt samkvæmt frumvarpinu sem hér er lagt fram. Það var í sjálfu sér gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir alla sem að málinu koma að skýra þetta stóra mál.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir góða umræðu og ég vonast til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta til uppbyggilegrar og jákvæðrar umfjöllunar. Ég heyri að hér eru menn almennt á því, þvert á pólitískar línur, að þetta frumvarp sé til bóta, og það er vel, og þá væntanlega til þess fallið að skapa sátt um þessi mikilvægu málefni.