140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[14:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum. Frumvarpið er á þskj. 1254 og 763. mál þingsins.

Frumvarp til nýrra heildarlaga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta var lagt fram á Alþingi 2009, en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið var lagt fram að nýju á árinu 2010 með nokkrum breytingum. Það frumvarp hlaut heldur ekki afgreiðslu, en í stað þess voru tvívegis gerðar breytingar á lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, annars vegar með lögum nr. 15/2011 og hins vegar með lögum nr. 55/2011.

Með lögum nr. 15/2011 var bætt við lögin bráðabirgðaákvæði I en með því var inngreiðslum aðildarfyrirtækja til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frestað til 1. júní á árinu 2011, en samkvæmt þágildandi lögum áttu greiðslur í sjóðinn að greiðast fyrir 1. mars.

Með lögum nr. 55/2011 var öðru bráðabirgðaákvæði bætt við lögin. Þar var mælt fyrir um að vegna ársins 2011 skyldu innlánsstofnanir greiða gjald til sjálfstæðrar deildar sjóðsins. Frumvarpið var flutt af meiri hluta viðskiptanefndar og byggðu ákvæði frumvarpsins að stórum hluta á 10., 11. og 14. gr. frumvarps efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem nefndin hafði þá til meðferðar.

Í ákvæðinu var í fyrsta lagi kveðið á um að iðgjöld sem greidd væru á árinu 2011 skyldu renna til sjálfstæðrar deildar sjóðsins. Í öðru lagi var kveðið á um nýja aðferð við útreikninga iðgjalds þannig að það skyldi vera samtala almenns iðgjalds sem samsvaraði 0,3% á ári af öllum innstæðum og iðgjald sem reiknað skyldi út á grundvelli sérstaks áhættustuðuls. Í þriðja lagi var kveðið á um að iðgjald í Tryggingarsjóð skyldi greitt ársfjórðungslega og er því í raun um samtímagreiðslur að ræða en fram að því höfðu greiðslur í sjóðinn verið greiddar eftir á, þannig að greiðslur vegna ársins 2008 voru greiddar á einum gjalddaga á árinu 2009. Í fjórða lagi var kveðið á um framkvæmd innheimtu og greiðslu iðgjaldsins og viðurlög við vanskilum á iðgjaldi. Þá var í lögunum að finna nýja skilgreiningu á hugtakinu „innstæða“ auk þess sem lögfest var ákvæði um að ákveðnir aðilar nytu ekki verndar Tryggingarsjóðs. Loks var í lögunum kveðið á um að takmarkanir á vernd ákveðinna aðila leiddu ekki til röskunar á rétthæð innstæðna í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð innlánsstofnunar samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.

Nú liggur fyrir að ekki verður lagt fram frumvarp til heildarendurskoðunar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á yfirstandandi þingi. Því er nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvernig fara á með greiðslu iðgjalda vegna ársins 2012, en framangreint bráðabirgðaákvæði gildir aðeins um greiðslur vegna ársins 2011.

Í ljósi framangreinds er þetta frumvarp lagt fram. Í því er lagt til að meginhluti þeirra ákvæða sem lögfest voru til bráðabirgða fyrir árið 2011 verði felld á varanlegan hátt inn í meginmál laganna um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Rétt er að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall verði lækkað frá því sem er í gildandi bráðabirgðaákvæði.

Eins og segir að ofan er með frumvarpinu verið að fella meginefni bráðabirgðaákvæðis inn í meginmál laganna. Þetta er grundvallaratriði. Ég vil samt nota þetta tækifæri og geta helstu ákvæða frumvarpsins.

Lagt er til að lögfest verði að sjóðurinn starfi í þremur sjálfstæðum deildum, annars vegar tveimur innstæðudeildum, A- og B-deild, og verðbréfadeild hins vegar. Nú er kveðið á um það í lögunum að sjóðurinn skuli starfa í tveimur deildum, innstæðudeild og verðbréfadeild. Með lögum nr. 55/2011 var kveðið á um að greiðslur vegna ársins 2011 skyldu renna til sjálfstæðrar deildar sjóðsins. Því má segja að nú þegar séu þrjár deildir við sjóðinn, en ákvæðinu er ætlað að binda það fyrirkomulag með fastari hætti í lög. Deildirnar skulu hafa aðskilinn fjárhag og reikningshald og bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.

Gert er ráð fyrir, líkt og í gildandi bráðabirgðaákvæði II, að iðgjöld séu samtala almenns iðgjalds og iðgjalds sem reiknað er á grundvelli áhættustuðuls. Lagt er til að almennt iðgjald skuli nema sem svarar 0,235% á ári af öllum innstæðum. Er þetta aðeins lægra hlutfall en í ákvæði til bráðabirgða II þar sem kveðið er á um að iðgjald fyrir árið 2011 skuli nema 0,3% á ári af öllum innstæðum. Með lækkun álagningarhlutfallsins má reikna með að hið almenna iðgjald sem lagt er á innlánsstofnanir verði milljarði lægra en innheimta vegna 2011 skilaði. Gert er ráð fyrir að iðgjald sem reikna skal í samræmi við áhættustuðul sé breytilegt í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun.

Eins og í gildandi ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að iðgjöld séu óendurkræf. Þó er lagt til það nýmæli að kveðið verði skýrlega á um að stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta geti ákveðið að endurgreiða iðgjöld sem hafa verið ofgreidd vegna mistaka við útreikning. Er þetta lagt til í ljósi reynslu af beitingu bráðabirgðaákvæðis II. Þá eru í ákvæðinu reglur um upplýsingagjöf til sjóðsins og afleiðingar þess ef upplýsingagjöf er ekki sinnt.

Iðgjöld til hinnar nýju innstæðudeildar skulu greidd í krónum. Af sjálfu sér leiðir að reyni á greiðsluskyldu deildarinnar verða greiðslur úr deildinni inntar af hendi í krónum. Í frumvarpinu er lögð til breyting á 6. gr. laganna en þar er nú kveðið á um inngreiðslur í innstæðudeild sjóðsins. Lagt er til að í ákvæðinu verði aðeins kveðið á um B-deild sjóðsins en í henni eiga að vera eignir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og skuldbindingar eins og þær voru við gildistöku laga nr. 55/2011 og þær skuldbindingar sem á sjóðnum hvíldu samkvæmt lögum nr. 98/1999 á sama tímamarki.

Í ákvæði til bráðabirgða III með þessu frumvarpi eru gerðar tillögur um að B-deild sjóðsins verði lögð niður þegar staðið hefur verið að fullu við skuldbindingar sem á gömlu deildinni hvíla við gildistöku laga þessara, verði frumvarpið að lögum.

Loks vil ég vekja athygli á því að lagt er til í frumvarpinu að lögfest verði hvaða innstæður eru undanskildar vernd samkvæmt lögunum. Er ákvæðið í samræmi við þær undantekningar frá tryggingavernd sem nú er kveðið á um í bráðabirgðaákvæði II í gildandi lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu.