140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[15:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon svaraði 18. nóvember 2011, með leyfi hæstv. forseta:

„Innstæðurnar eru annars eðlis og hv. þingmaðurinn hlýtur að þekkja það vegna þess að margbúið er að ræða það hér á þingi, alveg frá því í október, nóvember 2008. Þar er um pólitíska stefnumarkandi yfirlýsingu stjórnvalda að ræða, ekki ríkisábyrgð í skilningnum ríkisábyrgðarlög eða annað í þeim dúr.“

Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra lýsti því yfir að ekki væri ríkisábyrgð á innstæðum. Þetta er verulega veigamikið atriði og ég vil spyrja hæstv. ráðherra aftur hvort hún telji að ríkisábyrgð sé á innstæðum eða hvort hún sé sammála hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, sem vill svo til að er núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem hæstv. ráðherra er í staðinn fyrir. Hann er svo önnum kafinn vegna allra sinna embætta og vegna stærðar ráðuneytisins að í annað skipti hefur hann ekki tíma til að flytja sín mál.