140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Bankastarfsemi byggir á trausti, hún byggir mjög mikið á trausti, hún lifir eiginlega eingöngu á trausti þegar maður leggur pening, sparifé sitt, inn í banka. Fé sem hann hefur unnið fyrir og borgað skatta af o.s.frv., hann frestar neyslu, hann kaupir ekki bíl, hann sleppir því að gera ýmislegt og leggur sparnaðinn inn í banka, þá treystir hann því að hann fái peninginn til baka. Nú er staðan reyndar þannig í augnablikinu og hefur verið nokkuð lengi að innstæður rýrna mjög hratt í verðbólgunni. Þær eru að meginhluta 60–70% óverðtryggðar, menn fá 2–3% vexti í 6% verðbólgu og þessi 2–3% eru skattlögð alveg undir drep. Það er gamall söngur en svona vilja stjórnvöld hafa þetta. Menn vilja sem sagt refsa fyrir ráðdeild og sparnað. Menn vilja helst að fólk hætti að spara og hætti að sýna ráðdeild og sparnað og það eiga víst allir að taka lán, það er stefnan því að á hinu háa Alþingi er alltaf verið að tala um niðurfellingu á lánum og annað slíkt en aldrei um vanda sparifjáreigenda, aldrei. Það ergir mig, frú forseti, af því að ég er hlynntur ráðdeild og sparsemi.

Til að svara kalli sparifjáreigenda um ábyrgðina og traustið hafa Evrópusambandsríkin búið til kerfi innlánstrygginga og það svæfir sparifjáreigandann. Það segir honum: Hér er ágætistrygging sem við ætlum að veita þér. Eins og fram kom á Íslandi er sú trygging einskis virði vegna þess að þegar það verður stórt fall, og það þarf ekki einu sinni að vera svo mikil samþjöppun á innstæðum eins og í fyrirtækjum á Íslandi þar sem voru bara þrír aðalleikarar í dæminu, það er nóg að einhver banki fari á hausinn sem er með 10% hlutfall eins og Dexia í Belgíu. Ef slíkur banki fer á höfuðið dugar innstæðutryggingarsjóðir ekki neitt. Um það hefur Evrópusambandið þagað alla tíð og þess vegna væri sérstaklega áhugavert að sjá niðurstöðuna af Icesave-málinu því að ef Íslendingar verða dæmdir til að greiða samkvæmt hugsun þeirra er komin ríkisábyrgð á allar innstæðutryggingar í Evrópu og bankamennirnir geta farið að hegða sér enn óvarlegar og tekið enn meiri áhættu og sparifjáreigendur geta treyst því að ríkið komi til hjálpar. Ef þeir tapa hins vegar málinu kemur í ljós að það er akkúrat engin trygging og þá getur myndast áhlaup á banka um alla Evrópu, sérstaklega í smærri löndum. Ég skil ekki af hverju þetta mál er yfirleitt fyrir dómstólum hjá ESA því að það má hvorki vinnast né tapast.

Á Íslandi er staðan sú að innstæður heimilanna fara hratt minnkandi, bæði vegna þess að þær brenna í verðbólgu, eins og ég gat um áðan, 60% af innstæðum eru óverðtryggðar. Af hverju skyldi það vera, frú forseti? Það er vegna þess að ef menn ætla að fá verðtryggingu á innstæðum þurfa þeir að binda peningana í þrjú ár og treysta því að bankarnir lifi í þrjú ár. Það er nokkuð sem menn eru ekki tilbúnir að gera þannig að meginhlutinn af innstæðum á Íslandi er óverðtryggður. Menn tapa þar og síðan kemur í ljós að það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum eins og margir hafa haldið fram og ég fullyrði að það kerfi sem við eigum að byggja upp er galtómt. B-deildin er tóm ef Icesave tapast, reyndar verður dálítið mikið þar inni ef Icesave vinnst en það er áhætta, og A-deildin er að fara af stað, hún er tóm. Ef eitthvað gerist á næstu árum er ekkert inni í þessum sjóði, ekki neitt, enda stefnir hann að einhverju allt öðru og eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom inn á þá þýðir eitt fall banka á Íslandi 30% fall að meðaltali á innstæðum og sá sjóður mun aldrei eignast slíka fjármuni að hann geti greitt slíkt tap.

Það tókst með snilldarlegum hætti að bjarga innstæðum á Íslandi með neyðarlögum. Það var kraftaverk. Það var líka kraftaverk að það tókst að halda greiðslumiðlunarkerfinu gangandi. En hvort menn geti leikið þann leik aftur er ég ekki viss um. Það þarf að vera ákveðin eign til staðar til að það sé hægt og á móti innstæðunum. Ég óttast það eftir þau áföll sem barátta skuldara undanfarin ár hefur valdið bönkunum og ákvarðanir Hæstaréttar hafa skaðað bankana alveg gífurlega trekk í trekk, upp á tugi milljarða í hvert skipti. Þá getur maður farið að efast. Bankastjórinn má aldrei segja að banki sé illa stæður, hafið það í huga, þannig að þó að menn í bönkunum beri sig vel og segi að þetta sé nú allt innan þeirra marka sem þeir reiknuðu með er þetta gefið svar.

Ég held að stjórnvöld þurfi að fara að skoða stöðu sparifjáreigenda ef þau vilja yfirleitt hafa sparifé á Íslandi. Án sparifjár er ekkert lánsfé. Það var einu sinni þannig á Íslandi. Ég er orðinn allt of gamall, ég man þá tíð að hvergi var lán að fá nema í gegnum klíku hjá ríkisbönkunum eða í gegnum klíku hjá lífeyrissjóðunum og þar átti maður rétt á láni eftir að hafa borgað í lífeyrissjóð í þrjú eða fimm ár. Ég þekki það allt saman allt of vel, því miður. Mér sýnist að við séum að stefna í sömu átt og andúð hæstv. ríkisstjórnar á sparnaði, sem endurspeglast í síhækkandi sköttum á fjármagnstekjur, síhækkandi sköttum á hagnað fyrirtækja, kemur fram í því að menn eru hættir að spara. Menn kaupa frekar bíla, fara í utanlandsferðir eða kaupa fasteignir og það hefur haldið fasteignaverðinu uppi. Svo rýrnar náttúrlega sparnaðurinn af sjálfu sér vegna verðbólgu. Mér finnst það vera mjög hættuleg braut og ég mundi gjarnan vilja að einhver banki yrði stofnaður sem hefði hag sparifjáreigenda að leiðarljósi og lánaði ekki neitt nema leggja inn í Seðlabankann með ríkisábyrgð eða eitthvað því um líkt.

Það er ein leið til að leysa þetta sem ég vildi gjarnan að menn ræddu og hugleiddu. En fyrst ætla ég að geta þess að Seðlabankinn er með ríkisábyrgð og hann getur prentað peninga eins og honum dettur í hug og það er ríkisábyrgð á seðlum. Þess vegna hafa mjög margir innlánseigendur tekið peningana sína út, breytt þeim í seðla og sett inn í bankahólf. Það er nokkuð um það af því að menn treysta ekki bönkunum og seðlarnir eru með ríkisábyrgð. Þetta er ótakmörkuð ríkisábyrgð. Seðlabankinn getur gefið út peninga með þessum hætti og dælt þeim inn í bankahólf og það er ríkisábyrgð á öllu saman. Þetta þarf að sjálfsögðu að stöðva, þetta er eitt af því sem mér finnst að þurfi að koma inn í fjárlög. Ég mundi vilja að fjárlaganefnd eða Alþingi mundi samþykkja fjárveitingu fyrir 50 milljarða ríkisábyrgð á innstæðum. Þær innstæður hefðu algeran forgang í eigið fé banka við þrot og lögð yrði fram 20% binding á móti. Bankarnir mundu bjóða í þessa ríkisábyrgð á innstæðum. Sá sem best byði gæti þá sagt við sparifjáreigendur: Þessar innstæður eru ríkistryggðar. Og ef það er ekki nóg að hafa 50 milljarða getum við aukið það en þá vitum við hvaða skuldbindingu ríkið á að taka á sig. Það er hugmynd sem ég vil gjarnan viðra, að kanna hvernig þetta liti út gagnvart sparifjáreigendum. Þá væri komin ekta ríkisábyrgð á innstæðum en vextirnir yrðu sennilega mjög lágir og kannski neikvæðir vegna ríkisábyrgðargjalds. Stjórnvöld mundu borga fyrir að fá ríkistryggðar innstæður en þá yrði það þeirra val. Mér finnst það heiðarlegra en það er í dag þegar peningarnir brenna upp því að innstæður eru óverðtryggðar. Þeir brenna um 4% á ári. Ég held að ég hafi reiknað út að á tíu árum er helmingurinn farinn af innstæðunni og ef menn geta keypt bíl í dag geta þeir keypt hálfan bíl eftir tíu ár með sama áframhaldi. Stjórnvöld hafa ekki miklar áhyggjur af þessu og ganga stöðugt á bankana og eigið fé þeirra með bæði dómum og álögum.