140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[15:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt sem kemur fram í frumvarpinu, en hann hefur fjallað mikið um þessi mál og hefur setið í þeirri nefnd á undanförnum árum sem hefur einmitt farið yfir þetta. Það er varðandi 6. mgr. 9. gr. sem á að orðast með eftirfarandi hætti:

„Eftirfarandi innstæður eru undanskildar tryggingu …“, þ.e. njóta ekki ríkisábyrgðar eða Tryggingarsjóðs. Það eru innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila. Síðan eru fleiri liðir, einir átta liðir, t.d. heyra innstæður lífeyrissjóða undir þetta.

Nú þekki ég það að ríkið getur að sjálfsögðu lagt peningana inn í Seðlabankann. Mig langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki hvernig það er gagnvart sveitarfélögunum. Ég þekki það ekki nægilega vel til að geta fullyrt hvort þau geti í sjálfu sér lagt inn í Seðlabankann. Ég held að það sé reyndar ekki þannig en ég er ekki viss um það. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann — ég hefði kannski frekar átt að spyrja hæstv. ráðherra um þetta eftir ræðu hennar, en ég hafði bara ekki rekið augun í þetta þá. Ég er dálítið hugsi yfir því hvort menn þyrftu ekki að skoða alvarlega að gefa sveitarfélögum sem öðru stjórnsýslustigi heimild til að leggja inn í Seðlabankann. Auðvitað gerist hið sama með opinbert fé sveitarfélaganna ef bankarnir færu hugsanlega á hliðina. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki verði að skoða sérstaklega hvernig þetta er og hvernig eigi að bregðast við og gefa þá sveitarfélögunum heimild að leggja inn í Seðlabankann eins og ríkið getur gert, þannig að sveitarfélögin og íbúar þeirra mundu ekki tapa eignum sínum ef eitthvað kæmi fyrir.