140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[15:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil umhyggju hv. þingmanns fyrir sveitarfélögunum en ég sakna umhyggju hans fyrir hinum venjulega sparifjáreiganda. Af hverju skyldi hann ekki geta lagt inn í Seðlabankann með nákvæmlega sama hætti?

Þetta snýr allt að því sama. Innstæður eru í hættu og mér finnst að hæstv. ríkisstjórn eigi að fara að sinna þeim, bæði með því að minnka til dæmis skattlagningu á innstæður og skattleggja ekki neikvæða raunvexti og með því að gæta enn betur að hag bankanna. Sparifjáreigendur sjálfir þurfa að gera miklu meiri kröfur til bankans síns og hvernig hann stendur.

Varðandi sveitarfélögin eru þau ekki öll í þeim vanda að eiga of mikið af peningum, að minnsta kosti ekki lausafé og ekki sparifé. Sum eru það og það yrði mjög hastarlegt ef þau töpuðu þeim innstæðum, en þeim er náttúrlega í lófa lagið að kaupa spariskírteini ríkissjóðs eða eitthvað slíkt á markaði. Þau geta þá selt þau seinna ef á þarf að halda.