140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta frumvarp sé komið á dagskrá þingsins. Það hefur verið til vansa hvernig búið hefur verið að réttarstöðu transfólks og umboðsmaður Alþingis hefur gert við það athugasemdir. Það er því fagnaðarefni að þetta mál skuli hafa fengið að komast á dagskrá þingsins enda þótt langt sé liðið á starfstíma þingsins og það sé í raun tekið allt of seint á dagskrá. En þetta er mikilvægt mál og ég sem formaður hv. velferðarnefndar vil lýsa því yfir að við í nefndinni munum reyna að ljúka vinnu við frumvarpið fyrir þinglok. Það er að minnsta kosti markmið mitt. Mjög vel hefur verið unnið að undirbúningi málsins og samráð haft við flesta ef ekki alla þá sem nauðsynlegt er að hafa gott samráð við um mál sem þetta. Ég lít svo á að málið sé vel undirbúið og vona svo sannarlega að ekkert komi upp á í vinnslu málsins sem gæti orðið til að fresta því því að þetta tel ég með mikilvægari málum fyrir lok þessa vorþings.