140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil eins og aðrir fagna því að þetta mál er komið fram. Það snertir ekki marga en þá sem það snertir skiptir það öllu. Ég held að við eigum að leggjast á eitt og reyna að klára málið.

Það er eitt sem mig langar til að spyrja ráðherra um. Það lýtur að nafnbreytingum í þjóðskrá og hvenær hægt sé að gera það. Ef ég skil þetta rétt þarf viðkomandi að hafa lifað í gagnstæðu kynhlutverki í að minnsta kosti eitt ár áður en sérfræðinganefnd um kynáttunarvanda staðfestir ósk hans um að hann tilheyri gagnstæðu kyni og þá er hægt að fara fram með nafnbreytingu í þjóðskrá.

Mig langar að fá rökin fyrir því að ekki sé hægt að gera þetta fyrr ef einstaklingur leitar eftir því, af hverju hann, ef hann er farinn að lifa í gagnstæðu kynhlutverki, geti ekki þegar fengið nafn sem tilheyrir því kynhlutverki.