140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:42]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Í 1. gr. þessa frumvarps til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum með kynáttunarvanda jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi.“

Það er nákvæmlega það sem hv. ræðumenn hafa komið inn á. Þetta mál sem lætur svo lítið yfir sér og snertir vissulega ekki marga einstaklinga er samt mjög mikilvægt mannréttindamál og fjallar einmitt um mannhelgi.

Mig langar eins og aðrir að þakka hæstv. ráðherra Guðbjarti Hannessyni kærlega fyrir að koma með þetta mál og vinna það jafn vel og raun ber vitni, sannarlega ekki fyrsta mál sem hæstv. ráðherra flytur og varðar bætt mannréttindi og mannhelgi einstaklinga og ábyggilega ekki það síðasta. Það er mikið fagnaðarefni og ég tek undir þakkir til hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.

Að mínu mati erum við að koma inn á, og þetta hef ég sagt áður, eitt af því marga sem við Íslendingar getum verið stolt af í okkar litla samfélagi. Við lifum á miklum umrótatímum og eðlilega hefur neikvæðni, svartsýni og bölmóður verið einkennandi fyrir ýmislegt í umræðunni vegna þess að við höfum orðið fyrir svo miklu hnjaski og fólk er víða fullt vonbrigða og reitt út af því sem á hefur gengið. En um leið er margt í okkar litla samfélagi sem við getum verið óskaplega ánægð með, stolt af og á að fylla okkur von, bjartsýni og jákvæðni. Eitt af því er einmitt það hvernig við höfum staðið okkur í tilteknum mannréttindamálum eins og þau er varða mannréttindi samkynhneigðra og tvíkynhneigðra og svo núna þau skref sem við erum að taka hvað varðar mannréttindi einstaklinga með kynáttunarvanda. Ef við berum okkur t.d. saman við aðrar Norðurlandaþjóðir, sem við gerum gjarnan, getum við sannarlega litið á okkur sjálf með reisn og sagt: Það er nákvæmlega svona sem við viljum ganga fram, sem rödd mannréttinda í heiminum.

Þetta mál fjallar í grunninn um frelsi einstaklingsins. Það er mikið talað um frelsi í samfélaginu, frelsi markaðarins, frelsi viðskiptalífsins, frelsi þessa og hins, en það sem öllu máli skiptir að sjálfsögðu þegar við tölum um frelsi er frelsi manneskjunnar til að vera sú sem hún vill vera, vera sú sem hún er og umfaðma þannig fjölbreytni og fjölbreytileika mannlífsins. Þær manneskjur sem við erum að ræða um í þessu frumvarpi lifa ekki einungis við þá sannfæringu og þá upplifun heldur þá vissu og þá staðreynd að þær eru fæddar í röngum líkama.

Nýlega, bara fyrir nokkrum dögum, var viðtal við unga 12 ára stúlku sem fæddist í líkama drengs á Suðurnesjum. Viðtalið sem ætti að snerta okkur öll var bæði við þessa litlu stúlku og mömmu hennar. Hún sagði þegar hún var þriggja ára gömul: En pabbi, ég er stelpa. Þarna er einmitt talað um mikilvægi þess að fræða fólk, eyða fordómum um þessi efni og hjálpa okkur sjálfum og okkur öllum og samfélaginu að taka fjölbreytni mannlífsins af kærleika og virðingu.

Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir benti á í ræðu sinni og nefndin þarf kannski sérstaklega að skoða það, þ.e. breytingar sem varða almenn hegningarlög, einnig breytingar sem varða endurskoðun sjúkratrygginga og mismunun á grundvelli kynvitundar við gerð væntanlegs frumvarps til laga um bann við mismunun. Ég ætla ekki að fara nánar út í það vegna þess að það kemur fram í því sem starfshópurinn skilaði af sér en vert er að skoða það áfram.

Mig langar líka að taka undir það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði í ræðu sinni þegar hann talaði um Evrópuráðið og það sem þaðan hefur komið. Mig langar sérstaklega að vitna í það sem fram kemur um það í tillögum nefndarinnar vegna þess að það er umhugsunarefni fyrir okkur öll. Þetta er úr skýrslu á vegum mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar í Evrópu. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa þetta:

„Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins mælir með að yfirvöld í aðildarríkjum Evrópuráðsins:

Undirriti og fullgildi bókun 12 við mannréttindasáttmála Evrópu um almennt bann við mismunun.

Lögleiði bann við mismunun í innlenda löggjöf þar sem mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar er hluti mismununarástæðna.

Rannsaki innlend lög með það að markmiði að koma í veg fyrir ósamræmi við löggjöf um bann við mismunun.

Setji á fót stofnun sem styður við jafnrétti og bann við mismunun.

Að auki mælir mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins með að yfirvöld grípi til sérstakra aðgerða hvað varðar vernd einkalífs og fjölskyldu. Aðildarríki Evrópuráðsins skulu:

Viðurkenna lagalega það kyn sem transgender einstaklingar kjósa og þróa greitt og gegnsætt verklag fyrir kynleiðréttingar og nafnbreytingar þeirra á fæðingarvottorðum, í þjóðskrá, á vegabréfum og öðrum álíka skjölum.

Afnema ófrjósemisaðgerðir og aðrar læknismeðferðir sem nauðsynleg skilyrði fyrir viðurkenningu á því kyni sem transgender einstaklingur kýs.

Afnema skilyrði um að transgender einstaklingar verði að vera einhleypir eða fráskildir til að fá viðurkenningu á að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni.

Virða réttindi transgender einstaklinga til að ganga í hjónaband.

Veita samkynhneigðum pörum sömu réttindi og gagnkynhneigð pör njóta, t.d. á sviði almannatrygginga, atvinnu, lífeyrisréttinda, erfðaréttar o.fl.

Veita samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transgender einstaklingum sömu tækifæri á að ættleiða barn og aðrir umsækjendur njóta með hliðsjón af meginreglunni um að gera skuli það sem barni er fyrir bestu.

Viðurkenna áframhaldandi rétt transgender einstaklinga til að vera foreldri eftir viðurkenningu á að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni.

Veita aðgang að tæknifrjóvgun án mismununar á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.

Leitast við að veita fjölskyldum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra eða transgender einstaklinga viðeigandi stuðning.

Endurskoða skilyrði um sjúkdómsgreiningu kynáttunarvanda innan greiningarkerfis geðlækninga (e. diagnosis of mental disorder) til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu sem transgender einstaklingur. Transgender einstaklingar skulu njóta sjálfsákvörðunarréttar og bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.

Veita transgender einstaklingum möguleika á kynleiðréttingarmeðferð, svo sem hormónameðferð, skurðaðgerð og sálfræðiþjónustu, með þátttöku sjúkratrygginga og að gefnu upplýstu samþykki viðkomandi einstaklings.

Virða atvinnufrelsi transgender einstaklinga með því að tryggja vernd viðkvæmra persónuupplýsinga sem snerta kynvitund þeirra. Yfirvöld skulu einnig hvetja til aðgerða gegn útilokun og mismunun transgender einstaklinga á vinnumarkaði.“

Frú forseti. Mér fannst ástæða til að lesa þetta allt saman upp vegna þess að það er að svo mörgu að hyggja í þessum efnum. Sem betur fer höfum við á Íslandi einmitt tekið á ýmsum þessara þátta og hræðilegt til þess að hugsa hvernig ástandið er í ýmsum öðrum löndum, jafnvel þeim sem standa nokkuð nálægt okkur. Enn eru þó ýmis atriði sem við þurfum að fara í gegnum varðandi það sem hér er lagt fram og komið hefur fram í umræðum að þurfi skoða aðeins betur.

Mig langar líka af þessu tilefni, og það tengist aðeins andsvari hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, að vekja athygli þingheims og nefndarinnar á nýafgreiddum lögum í Argentínu. Eftir því sem ég kemst næst eru þetta nokkurra daga gömul lög sem ég held og mér sýnist á öllu að hafi verið afgreidd bæði úr efri og neðri deild þings Argentínu. Í fljótu bragði sýnist mér lögin vera stórkostlega framsækin í þessum efnum. Einstaklingur þarf til dæmis ekki annað en að segja: Ég vil ekki heita Guðfríður Lilja heldur Hallgrímur Helgi — og þá er það skráð þannig. Einstaklingur ákvarðar sjálfur samkvæmt sjálfsvitund sinni hver hann vill vera og upplýsir svo samfélagið um það.

Ég nefni þetta vegna þess að ég held að vert sé kynna sér í það minnsta þessi nýju lög Argentínumanna sem ætla greinilega að hasla sér völl á þessu sviði og vera mjög framarlega. Án efa er ýmislegt sem við getum lært þar af.

Kannski er ágætt að vitna í lítinn tölvupóst frá alþjóðlegum samtökum transfólks þar sem það fagnar þessum væntanlegu breytingum í Argentínu og segja í gleði sinni: Við erum öll að breyta heiminum saman.

Eins og ég kom inn á í upphafi máls míns er það það sem við, okkar litla samfélag, og hæstv. ráðherra hefur leitt þá vinnu, erum að gera. Við erum að hjálpa til við að breyta samfélaginu í litlu máli sem lætur lítið yfir sér en er samt í eðli sínu svo óskaplega stórt.