140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

íslenskur ríkisborgararéttur.

135. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund fulltrúa innanríkisráðuneytis, fulltrúa frá Mannréttindaskrifstofu og umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og umboðsmanni barna.

Helsta breyting frumvarpsins lýtur að því að auka heimildir ráðherra til að veita íslenskan ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun þegar umsækjandi hefur sætt sektargreiðslu. Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting í þá veru að skipta sektarfjárhæðum í flokka eftir fjárhæð og getur umsækjandi öðlast ríkisborgararétt að liðnum ákveðnum tíma frá því að brot var framið en biðtími ræðst af því hversu há sektin er. Einnig eru lagðar til fleiri breytingar á þeirri grein laganna er varðar umsækjendur sem hafa sætt sektum eða fangelsisrefsingu og lögð er til breyting á biðtíma þegar umsækjandi hefur hlotið skilorðsbundinn dóm. Lagt er til að biðtími allra skilorðsbundinna dóma verði þrjú ár frá því að skilorðstími er liðinn en samkvæmt gildandi lögum getur biðtíminn orðið allt að 14 ár. Þá er gert ráð fyrir því að ráðherra verði veitt heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt þó svo að umsækjandi hafi framið fleiri en eitt brot svo fremi að hann hafi aðeins sætt sektarrefsingum og samanlögð fjárhæð sekta er lægri en 101 þús. kr. en þá þarf að líða eitt ár frá því að síðasta brot var framið.

Til viðbótar framansögðu er lagt til að lögfest verði sú regla sem fylgt hefur verið í framkvæmd, þ.e. að biðtími vegna sektar verði ekki virkur nema hún hafi verið greidd eða fullnustuð með öðrum hætti.

Virðulegur forseti. Jafnframt er lagt til að tímabundið ákvæði til bráðabirgða við lögin verði endurvakið þannig að heimilt verði að endurveita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem hafa misst íslenskan ríkisborgararétt við það að sækja um annað ríkisfang. Nefndin leggur til að dagsetningu verði breytt í 1. júlí 2016 til að gefa viðkomandi umsækjendum ögn rýmri tíma til að bregðast við.

Virðulegur forseti. Í 3. tölulið 1. mgr. 9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt er kveðið á um að eitt þeirra skilyrða sem umsækjandi þarf að uppfylla til að geta öðlast íslenskan ríkisborgararétt sé að hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem ráðherra setur í reglugerð. Þessi þáttur var töluvert ræddur m.a. með tilliti til þeirra sem flytja hingað frá öðrum löndum og koma frá ólíkum málsvæðum. Sumir þeirra koma frá slíkum málsvæðum að þeim reynist erfiðara að læra íslensku en þeim sem koma frá málsvæðum germanskra mála sem íslenskan tilheyrir. Það er rætt og mælt fyrir að veitt verði undanþága sem komi einkum til greina þegar um er að ræða umsækjendur sem flust hafa til landsins nokkuð eftir miðjan aldur auk þeirra sem búa við einhvers konar fötlun þannig að krafa um íslenskupróf teljist óraunhæf. Einnig var fjallað um íslenskuprófin almennt við meðferð málsins í nefnd og vísað til þess að tryggja þyrfti ólæsum einstaklingum lestrar- og íslenskukennslu.

Virðulegur forseti. Vísað var til þess að bjóða reglulega upp á námskeið sem miðist við getu viðkomandi umsækjanda til að læra nýtt tungumál og þá var á það bent að gagnlegt væri að fræða umsækjendur um íslenskt samfélag, lagaumhverfi, réttindi og skyldur. Allsherjar- og menntamálanefnd bendir á meginreglu íslensks skólakerfis um einstaklingsmiðað nám og hvetur ráðherra til að skoða framangreint atriði með tilliti til þess.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað dagsetningarinnar 1. júlí 2015 í 3. gr. komi: 1. júlí 2016.

Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir þetta nefndarálit skrifa Björgvin G. Sigurðsson, formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir.