140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2010, frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Fjárlaganefnd hefur farið yfir frumvarpið og fengið á sinn fund Lúðvík Guðjónsson og Ingþór Eiríksson frá fjármálaráðuneyti og Jón L. Björnsson, Inga K. Magnússon og Pétur Vilhjálmsson frá Ríkisendurskoðun.

Frumvarpið er vel úr garði gert og hafa verið gerðar ýmsar umbætur á því á síðari árum. Við viljum árétta að lokafjárlög á að leggja fram samhliða staðfestum ríkisreikningi en þó að lokafjárlög hafi nú verið lögð fram fyrr en nokkru sinni þarf að bæta þetta. Rétt er að taka fram að við fögnum því þó að það sé lagt fyrr fram en oft áður en viljum að farið sé að lögum hvað þetta varðar.

Samkvæmt frumvarpinu eru gjöld samkvæmt ríkisreikningi 22,7 milljarðar, tæpir, umfram fjárheimildir og skýrist það fyrst og fremst af gjaldfærslu á 33 milljarða framlagi til Íbúðalánasjóðs. Ef til þess hefði ekki komið hefði lokastaðan verið 10,3 milljarða afgangur miðað við fjárheimildir sem Alþingi hafði þegar samþykkt.

Nefndin hefur farið yfir frumvarpið með mun ítarlegri hætti en oftast áður og er það þáttur í breyttu og bættu vinnulagi fjárlaganefndar við afgreiðslu slíkra mála. Vil ég sérstaklega þakka fulltrúum úr minni hlutanum fyrir mikla og góða vinnu í sambandi við frumvarpið og þann metnað sem þeir hafa sýnt í því að vinna þetta vel og tryggja að fjárlaganefnd geri sér grein fyrir hvað hún er að samþykkja í lokafjárlögum og leggja til við þingið að gera að lögum.

Mjög ítarlega er fjallað um mörkun tekna í frumvarpinu og við erum mjög ánægð í nefndinni með þann texta sem er mjög upplýsandi og fjallar um mikilvægi þess að afmarka megnið af þessum tekjum til að auka fjárstjórnarvaldið. Það kemur fram í nefndaráliti, bæði hjá meiri hluta og minni hluta, að það er vilji til þess og nefndin hyggst flytja frumvarp þar sem dregið er úr mörkun tekjustofna ríkisins.

Fjárlaganefnd hefur gagnrýnt að fylgiskjöl frumvarpsins gefi ekki nægilega skýra mynd af umfangi flutnings fjárheimilda milli ára. Við kölluðum eftir viðbótargögnum frá Ríkisendurskoðun til að bæta úr þessu og í framhaldinu mun fjármálaráðuneytið framvegis birta í frumvarpi til lokafjárlaga skýrara yfirlit um flutning og niðurfellingu fjárheimilda.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið skrifa, auk framsögumanns, Björn Valur Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Geirsson.