140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég hefði viljað fá þetta frumvarpi inn í þingið á vormánuðum því að þetta eru gríðarlega mikilvægar breytingar. En við vitum það líka að margir aðilar koma að vinnu við frumvarpið og þau tefjast eins og gengur en aðalatriðið er, eins og kom reyndar fram í máli hv. þingmanns, að vinnan sé sem vönduðust. Vinnan fer fram á vegum fjármálaráðherra en Alþingi á áheyrnarfulltrúa í þeirri nefnd. Við höfum líka hitt fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem voru með tæknilega ráðgjöf við verkefnið. Við hittum þá þegar þeir voru að útbúa sína skýrslu með ráðgjöf um hvernig best verði staðið að framkvæmd fjárlaga í ýmsum löndum og hvað þyrfti að bæta á Íslandi. Við höfum fengið kynningar og komum með ábendingar til verkefnisstjórans í þessu verkefni í fjármálaráðuneytinu og síðan hefur nefndin farið og kynnt sér ítarlega með hvaða hætti Svíar tóku á sínum ríkisfjármálum.

Ég lít svo á að fjárlaganefnd sé að undirbúa sig fyrir það að fjalla um frumvarpið og við munum núna fyrir þinglok fá fjármálaráðuneytið á okkar fund, fá kynningu á þeim drögum sem fyrir liggja, og þá munum við líka ræða hvort fjárlaganefnd vilji koma með ábendingar um breytingar eða slíkt.