140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

kynning á Icesave í ríkisstjórn.

[13:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkru spurði ég hæstv. forsætisráðherra að því hvort drög að samningum um Icesave hefðu verið kynnt í ríkisstjórn áður en samningarnir voru undirritaðir og jafnframt hvort farið hefði verið yfir efnahagslegar afleiðingar þess að undirrita samningana. Hæstv. forsætisráðherra fullyrti að svo hefði verið, sagði að drögin hefðu verið kynnt rækilega í ríkisstjórn og rædd frá mörgum hliðum, forsendum, efnahagsáhrifum o.s.frv. Mér þótti það nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að það tók margar vikur, ef ekki mánuði, að fá almennilega efnahagslega greiningu á áhrifum samninganna. Slík greining lá ekki fyrir þegar samningarnir voru kynntir svo að það er mjög óljóst hvaða greiningu hæstv. forsætisráðherra fór yfir í ríkisstjórninni.

Svo er það hitt, hvenær farið var yfir samningsdrögin. Á dagskrá ríkisstjórnarfunda, sem er að finna á vefsíðu forsætisráðuneytisins, kemur fram að 5. júní hafi verið haldinn ríkisstjórnarfundur þar sem fjármálaráðherra hafi rætt stöðuna í samningum um Icesave og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi rætt frumvarp til laga um hvali. Í beinu framhaldi af þeim fundi kom hæstv. forsætisráðherra í þingsal og svaraði því til að ekki væri búið að semja um Icesave en hún vonaðist til að einhvern tíma gætu náðst samningar. Ef sú yrði raunin yrðu samningarnir að sjálfsögðu yfirfarnir í ríkisstjórn; farið yrði yfir drögin þar, þau yrðu kynnt og rædd í þinginu áður en til undirritunar kæmi.

Seinna þann sama dag voru samningarnir umdeildu um Icesave hins vegar undirritaðir. Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra hvort hann minnist þess að haldinn hafi verið sérstakur leynilegur ríkisstjórnarfundur til að kynna drögin af Icesave-samningunum, fundur sem ekki er getið um í dagskrá ríkisstjórnarfunda á vefsíðu forsætisráðuneytisins.