140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

[13:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Í gær bárust fréttir af fundahöldum og yfirlýsingum frá Hreyfingunni til ríkisstjórnarinnar. Þar kom fram að Hreyfingin gerði ríkisstjórninni það tilboð að verja hana vantrausti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og áskilið að samningar um framgang ofangreindra mála tækjust. Þar voru nokkur mál tiltekin og eitt helsta skilyrði Hreyfingarinnar virðist vera að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að afnema verðtryggingu og fyrir almennri lækkun skulda heimilanna. Talsmenn Hreyfingarinnar og þingmenn Hreyfingarinnar hafa tekið það sérstaklega fram að ekki er verið að tala um að setja málin í nefnd, starfshópa, að þau séu skoðuð, heldur eigi þeim að ljúka í þessari viku.

Því vil ég spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvernig ríkisstjórnin ætli sér að bregðast við þessu tilboði. Hefur ríkisstjórnin í hyggju að koma með tillögur um almenna niðurfellingu á skuldum heimilanna fyrir helgi? Ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir afnámi verðtryggingar fyrir helgi? Ef ekki hefur ríkisstjórnin verið í viðræðum við Hreyfinguna um hvort þingmenn hennar falli frá þessum skilyrðum? Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti gefið mér greinargóð svör við þessum spurningum.