140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

[13:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka fram að þau samtöl sem við höfum átt við þingmenn Hreyfingarinnar hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki snúist um hlutleysi við hana eða óskir um slíkt af okkar hálfu heldur fyrst og fremst um nokkur mikilvæg mál sem Hreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að fái framgang og sem ríkisstjórnin er í mörgum tilvikum sammála Hreyfingunni um.

Það er vel þekkt að þingmenn Hreyfingarinnar eru miklir áhugamenn um að stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga og þeir hafa lagt áherslu á lýðræðis- og upplýsingamál o.fl. sem ágæt samstaða er um, að ég held, milli þingmanna Hreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar.

Að sjálfsögðu gildir hið sama um skuldavanda heimila og verðtrygginguna og mikilvægi þess að vinda ofan af henni og afnema hana. Spurningin þar er hins vegar hvort menn ná saman um leiðir og hvort þau úrræði reynast framkvæmanleg eða eru raunhæf sem menn hafa verið með uppi á borðum. Því er ekki að leyna að hugmyndir Hreyfingarinnar í sambandi við skuldamálin eru mjög umfangsmiklar og viðamiklar og gætu orðið nokkuð flóknar í framkvæmd. Á því eru bæði efnahagslegar og lagalegar hliðar sem við höfum ekki treyst okkur til að svara til um. Þetta mál er í skoðun. Við höfum að sjálfsögðu tekið vel í það að fara yfir þessi mál og ræða þau og finna hvar fletir liggja saman í þessum efnum og koma brýnum málum áleiðis eftir því sem samstaða gæti orðið um. En það er á þeim forsendum sem þetta hefur verið rætt, hvar leiðir liggja saman í mikilvægum málefnum sem þingið, og eftir atvikum stjórnvöld, þyrfti að vinna brautargengi á komandi dögum, vikum og mánuðum, reyndar allt saman viðfangsefni sem menn hafa verið að glíma við meira og minna samfellt þetta kjörtímabil.

Ég verð að hryggja hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur með því að hún er ekki enn komin inn í þessar viðræður. En ef hún er að bjóða fram þátttöku í þeim þá er það áhugavert.