140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

[13:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og ég sagði þá hefur þetta af okkar hálfu ekki snúist um hlutleysi við ríkisstjórn eða kröfur um slíkt. En mikilvæg mál eru hér undir og það er fjarri öllu lagi að það sé þannig að einhver hafni því að takast á við skuldavanda heimilanna og leita frekari lausna og úrræða í þeim efnum. Það hefur staðið yfir mjög mikil vinna í sambandi við að leysa þar vandamál sem út af standa, eins og t.d. þann hóp sem er með lánsveð. Ég geri ekki ráð fyrir að það hafi farið fram hjá hv. þingmanni. En það hefur reynst snúnara en menn vonuðust til að ná samstöðu allra sem þyrftu að koma saman að því borði að taka á því máli. Sá hópur stendur eftir og hefur ekki fengið þá úrlausn samkvæmt 110%-leiðinni sem ætlast var til að gengi yfir alla.

Svipað gildir um verðtrygginguna eða afnám hennar eða að draga úr vægi hennar. Þar hefur mikil vinna verið unnin. Efnahags- og viðskiptanefnd var með þetta á borði sínu vikum og mánuðum saman í vetur en því miður varð hún að játa sig sigraða á einhverjum tímapunkti og fann ekki leiðir áfram í þeim efnum. Sérstök nefnd, undir forustu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, skilaði mjög góðri skýrslu þar sem velt er upp ýmsum mögulegum leiðum til að stíga skref í áttina að afnámi verðtryggingar eða draga úr vægi hennar þannig að ekkert hefur verið afskrifað í þeim efnum.