140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórn.

[13:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en halda aðeins áfram með þessa skemmtilegu umræðu um stuðning við ríkisstjórnina. Ég vil í upphafi upplýsa hæstv. ráðherra um að fjölmargar tillögur hafa verið lagðar fram í þinginu um málefni heimilanna og hvernig bæta megi þar úr þannig að ekki skortir á vilja þingmanna til að eiga samstarf við ríkisstjórnina um þau mál en það hefur ekki gengið eins og við vitum.

Við sáum að það fóru fram einhver atvinnuviðtöl í ráðherrabústaðnum fyrr í vikunni þar sem greinilega var verið að leita liðsinnis við að styrkja ríkisstjórnina eða eitthvað slíkt. Maður veltir að sjálfsögðu fyrir sér hvaða kaup og kjör séu í boði. Hæstv ráðherra hefur upplýst að ríkisstjórnin hafi ekki sett fram það skilyrði að Hreyfingin, eða Dögun eða hvað flokkurinn heitir í dag, muni styðja ríkisstjórnina, komi til vantrausts, en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort boðið hafi verið á þessum fundum að styðja við ríkisstjórnina. Ég spyr ráðherra hvort Hreyfingin hafi sett ríkisstjórninni afarkosti, þ.e. að skilyrðin verði uppfyllt núna fyrir helgi eða þá að stuðningurinn sem gæti verið í boði renni út fyrir helgina. Er það rétt að tilboð hafi verið sett fram eða mun ríkisstjórnin óska eftir því að fá lengri frest til að uppfylla skilyrði Hreyfingarinnar? Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að allt frá árinu 2009 hafa sum þessara mála legið frammi eða svipaðar hugmyndir þannig að það ætti að vera búið að kryfja þau til mergjar. Við hljótum að spyrja hvort orðið hafi til einhver ráðningarsamningur eftir þau viðtöl sem fóru fram í ráðherrabústaðnum því að eftir viðbrögðunum að dæma er ríkisstjórninni full alvara með að reyna að styrkja (Forseti hringir.) sig með einhverjum hætti fyrir komandi daga.