140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórn.

[13:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er von að hæstv. ráðherra spyrji um hvað hafist upp úr þessu því að ég fæ alla vega ekki skilið hvað hæstv. ráðherra ætlar að fá út úr þeim atvinnuviðtölum sem fram fóru í ráðherrabústaðnum fyrir stuttu síðan. (Gripið fram í.)

Ég held að nauðsynlegt sé að minna hæstv. ráðherra á að mörg samtöl hafa átt sér stað við hæstv. ríkisstjórn sérstaklega um málefni heimilanna. Stjórnarandstaðan hefur lagt á borð ríkisstjórnarinnar margar tillögur um málefni heimilanna. En hver er árangurinn? Árangurinn er sá að ríkisstjórnin hefur ýtt öllu samtali og öllu samráði út af borðinu og gerir ekkert með það sem lagt hefur verið til, það er niðurstaðan. Því hljótum við að velta því fyrir okkur, sem er kannski tilefni þessarar umræðu hér, hvort það verði líka niðurstaðan núna að þeim málum sem Hreyfingin hefur greinilega sett fram sem einhvers konar skilyrði fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórnina verði bara ýtt út af borðinu.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, fyrst ráðherra er eitthvað hvekktur yfir þessum spurningum, hvort ríkisstjórnin muni fara fram á (Forseti hringir.) lengri frest til að svara kröfum Hreyfingarinnar.