140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stytting námstíma til stúdentsprófs.

[13:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það liggur fyrir að núgildandi lög um framhaldsskólann hafi í raun allar þær heimildir sem til þarf til að hægt sé að skipuleggja námið með ýmsum hætti. Við erum þegar með skóla sem starfa innan þriggja ára kerfis sem eru Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og Kvennaskólinn í Reykjavík sem munu útskrifa fyrstu nemendurna úr því kerfi nú í vor.

Ég lít svo á að lagagrunnurinn sé rúmur og ýmsir aðrir framhaldsskólar hafa hafið innleiðinguna á þessum lögum. Það sem vantar upp á er að heildstæðir kjarasamningar náist sem gera ráð fyrir styttri námstíma til stúdentsprófs. Í þessu samhengi hefur okkur líka fundist mikilvægt að ræða við sveitarfélögin til að við getum horft á málið heildstætt því að eitt af því sem við höfum séð í þeim greiningum á brottfalli sem við höfum látið vinna er að brottfall er ekki eingöngu viðfangsefni framhaldsskólans. Þar þarf líka að skoða það sem við getum kallað gamla gagnfræðastigið, ungmennanámið eða unglingadeildirnar í grunnskólunum. Ég held að í allri þessari vinnu þurfum við líka að horfa á skólakerfið heildstætt og er ætlunin að gera það meðal annars á ráðstefnu í haust.

Af því að hv. þingmaður spyr hvaða fyrirætlanir eru fyrir hendi tel ég að heimildir séu fyrir hendi í lögum. Við erum að vinna þar að ýmsum framfaramálum. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega verknámið en unnið er að því með frumvarpi um nýjan vinnustaðanámssjóð sem ég vona svo sannarlega að geti orðið að lögum í vor. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur til umfjöllunar þróunarsjóði fyrir styttri starfsnámsbrautir og síðan þarf að skoða kjarasamninga heildstætt út frá þessu fyrirkomulagi.