140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

lánsveð.

[14:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við gerðum samkomulag við lífeyrissjóðina og Samtök fjármálafyrirtækja í desember 2010 um svokallaða 110%-leið. Það varð niðurstaðan að allir gætu tekið þátt í henni og þar á meðal lífeyrissjóðirnir og höfðu menn þá í lokin ekki þungar áhyggjur af stjórnarskránni í þeim efnum, einfaldlega vegna þess að það var sameiginlegt mat manna að samlegðaráhrifin af því að menn tækju saman höndum og löguðu aðstæður þeirra heimila sem væru mest yfirveðsett og með þyngstu skuldirnar þýddu að allir kæmu betur út úr því og þar með talið lífeyrissjóðirnir, að þeirra miklu útlán til sjóðfélaga, sem að stærstum hluta eru með veð í fasteignum, mundu standa betur eftir, vera betur í skilum og greiðast betur til baka. Það er með sama hugarfari sem ég tel að við eigum að ráðast á það sem eftir stendur af þessari aðgerð sem er lánsveðshópurinn.

Það er ekki þannig að verið sé að afskrifa eitthvað í öllum tilvikum sem örugglega mundi innheimtast og þá ættu menn líka að velta því fyrir sér hvað það gæti kostað að innheimta það og hvað væri því samfara og hversu hart menn ætluðu að ganga fram. Þetta er nefnilega ekki bara svart og hvítt heldur er stórt grátt svæði þarna á milli, þar sem spurningin er um að meta hvers virði það er fyrir samfélagið að við tökum sameiginlega á þessum vanda og leysum mál þeirra sem út af standa, eins og þessa hóps. Ég tel að það græði allir á því þegar upp er staðið og þar með lífeyrissjóðirnir.

Það sem ég er að vísa í hér og mín gagnrýni er sú að ég hefði viljað að lífeyrissjóðirnir sýndu meiri vilja og meiri sveigjanleika til að beita þessari túlkun og þessari nálgun á málið, með nákvæmlega sama hætti og þeir réttlættu þátttöku sína í hinni almennu 110% aðgerð. Og þar hafa menn ekki verið að tala um að lífeyrissjóðirnir hafi framið stjórnarskrárbrot.