140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

lánsveð.

[14:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nú ekki þannig að allir sem hafa lánað veð séu endilega hátekjumenn. Það eru ekki allir foreldrar, öll systkini, allir frændur, allir vinir sem hafa aðstoðað ungt fólk í íbúðakaupum með því að lána því veð, endilega í þeirri aðstöðu núna að þeir gætu yfirtekið það lán og greitt af því. Enda eru þau lán í vanskilum og kannski ívið meiri vanskilum en lán sjóðfélaga lífeyrissjóða eru almennt. Og eru þetta þó þau lán sem ábyrgt fólk pínir sig hvað mest til að borga af og halda í skilum. Slæmt er jú að missa íbúðina undan sjálfum sér en enn verra að verða þess valdandi að foreldrar, aðstandendur, systkini lendi í erfiðleikum. Það liggur í hlutarins eðli að staða fólks, sem er að reyna að borga af þessum lánum, er líka mjög erfið félagslega og í mannlegu samhengi.

Auðvitað eru í þessum hópi fólks, sem hefur lánað börnum sínum veð, öryrkjar, fólk sem hefur misst atvinnuna o.s.frv. Og hvað mundi það þýða (Forseti hringir.) ef við færum þá leiðina sem mér heyrist hv. þingmaður vera að tala um? Segjum bara að 2.000 lán af þessu tagi lendi í vanskilum, ætla menn þá að fara að bjóða þær íbúðir upp? Þyldu lífeyrissjóðirnir það? Ég efast um það. Ég held að menn ættu að ganga hér hægt um gleðinnar dyr.