140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Þannig stendur á, eins og fram hefur komið, að nú á að hefja sérstaka umræðu um tiltekið mál og mér hefur sem þingmanni Reykvíkinga verið falið að taka þátt í þeirri umræðu sem háð er undir nafninu Nýlegur samningur borgar og ríkis um samgöngumál. Ég hef leitað að þessum nýlega samningi borgar og ríkis um samgöngumál og ekki fundið.

Ég verð að segja, forseti, að mér þykir ekki nógu gott að hér sé efnt til sérstakrar umræðu um samning sem ekki er til, sérstakrar umræðu um ekki neitt. Ég spyr líka hvort um geti verið að ræða samning um tíu ára tilraunaverkefni til að efla almenningssamgöngur milli ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. koma að Gunnar Einarsson, Ármann Kr. Ólafsson og Haraldur Sverrisson, bæjarstjórar í Garðabæ, (Forseti hringir.) Mosfellsbæ og Kópavogi. Þann samning fann ég og hann er vissulega nýlegur.