140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér sérstaklega nýjan samning borgar og ríkis um samgöngumál. Það vekur athygli þegar við skoðum þann samning, sem er að sönnu við fleiri bæjarfélög en einungis Reykjavíkurborg, að fresta á öllum stórum vegaframkvæmdum um hvorki meira né minna en tíu ár. Ég skal viðurkenna, virðulegi forseti, að ég átti í svolitlum vandræðum með að semja spurningar fyrir þessa umræðu vegna þess að mér fannst þetta svo augljóst. Ég set ekki fram margar spurningar. Uppleggið er einfaldlega þetta: Í Reykjavíkurborg verða flest umferðarslys á landinu. Það er sömuleiðis sá staður á landinu þar sem minnstar framkvæmdir hafa verið á undanförnum árum og ég spyr því hæstv. ráðherra:

Hvaða faglegar ástæður liggja til grundvallar þessari ákvörðun um frestun? Ég spyr líka: Af hverju á ekki að gera úrbætur á hættulegustu stöðum samgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu? Bara til að upplýsa um það, virðulegi forseti, sem ég hélt að vísu að flestir vissu, verða flest slys á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík. Við eigum mjög góðar upplýsingar um þetta, til dæmis er til nokkuð sem heitir Slysakort Umferðarstofu sem er lifandi kort á vefnum, þar getur hver og einn skoðað hvaða umferðarslys hafa orðið á undanförnum árum. Þau eru langflest í Reykjavík.

Fjöldi umferðarslysa á Íslandi hefur að meðaltali verið um 1.300 á ári, þ.e. slys á fólki, og 50% af þeim verða í Reykjavík. Það hefur ekki farið mikið fyrir því, virðulegi forseti, en ein tegund slysa hefur aukist alveg gríðarlega og það eru reiðhjólaslys. Þeim hefur fjölgað um 90% frá árinu 2002 og þar af eru 70% á höfuðborgarsvæðinu. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þegar maður sér tölurnar um alvarleg slys er átt við mjög alvarleg slys.

20 hættulegustu gatnamótin í þéttbýli eru öll á höfuðborgarsvæðinu og langflest í Reykjavík. Kringlumýrarbraut, Miklabraut og Reykjanesbrautin eru sérstaklega áberandi slysagildrur. Nú vitum við auðvitað öll, virðulegi forseti, að úr minni fjármunum er að spila en áður, það þarf í rauninni ekki að taka það fram. En að ætla að skrúfa algjörlega fyrir framkvæmdir, stærri framkvæmdir í Reykjavík á næstu tíu árum, er algjörlega óskiljanlegt.

Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að við séum að koma úr einhverju skeiði þar sem settir hafa verið gríðarlegir fjármunir í vegaframkvæmdir í Reykjavíkurborg. Um 1% af því sem sett í nýframkvæmdir í fyrra, um 100 millj. kr., fór til Reykjavíkur. Virðulegi forseti. Á þessu sviði er ekki hægt að gera mikið fyrir 100 milljónir. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur að meðaltali um 2% af nýframkvæmdafé farið til Reykjavíkurborgar.

Ég var að vonast eftir því, virðulegi forseti, að núna værum við komin á þann stað, vegna þess að við höfum þessar góðu upplýsingar um slys alls staðar á landinu og allra hluta vegna, að við ætluðum að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Ef við ætlum að gera það verðum við að taka á þeim stöðum þar sem flest slysin eru, það segir sig sjálft. Og jafnmikilvægar og hjólreiðar og almenningssamgöngur geta verið, ekki ætla ég að tala gegn þeim, þá verður það svo meðan við búum hér á landi í nánustu framtíð að hér verður bílaumferð og í umferðinni verða mjög alvarleg slys og flest slysin eru í Reykjavík. Það er stór ákvörðun hjá hæstv. ríkisstjórn að ætla ekki að taka á þeim vanda næstu tíu árin