140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem efnt hefur verið til um tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna. Það var undirritað af hálfu Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hinn 7. maí síðastliðinn, en áður höfðu fulltrúar ríkisstjórnar, innanríkisráðherra, fjármálaráðherra og fulltrúar sveitarfélaganna, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi Vegagerðarinnar, undirritað yfirlýsingu um framkvæmd tíu ára tilraunaverkefnis til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu haustið 2011, nánar tiltekið 22. september árið 2011.

Ég ætlaði að tíunda aðeins sögu þessa máls en ætla fyrst, svo að ég hafi tíma til að svara þeim spurningum sem settar voru fram, að víkja að frestun stórframkvæmda. Ég held að það sé nefnilega svolítið villandi að setja málið þannig fram vegna þess að þetta er stórframkvæmd í sjálfu sér. Ég held að við sem búum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að verða fullorðin í þeim skilningi að við erum orðin stórborg og verðum að bregðast við umferðarvandanum sem slík. Það getum við gert á tvennan hátt. Við getum haldið áfram í anda Houston í Texas þar sem alltaf er bætt við nýjum akreinum og fjölgað mislægum gatnamótum eða við getum farið þá leið sem við höfum valið og reynt að efla almenningssamgöngur.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að á höfuðborgarsvæðinu verða flest umferðarslys, og þau eru mörg hjólreiðaslys. Það er einmitt á þeim sem við erum að taka með því að efla þann þátt í samgöngukerfi okkar sem snýr að hjólinu og einnig fótgangandi umferð. Við lítum ekki lengur á hjólið, hjólhestinn sem afþreyingu eða til útivistar, heldur raunverulegt samgöngutæki. Ég tók þátt í opnun átaks um daginn, Hjólum í vinnuna, þar sem þetta var einmitt rauði þráðurinn í máli þeirra sem þar tóku til máls, (Gripið fram í.) fólks alls staðar að af þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu.

Ég ætla að víkja aðeins að meginmarkmiðum í þessu stórátaki, tilraunaverkefni til tíu ára. Markmiðið er í fyrsta lagi að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum. Við setjum okkur þetta markmið.

Í öðru lagi að vinna að lækkun á samgöngukostnaði heimila og samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa. Það vekur athygli í könnunum sem gerðar hafa verið hve þungt samgöngurnar vega í fjölskyldubókhaldinu. Þyngst vegur, ef ég man rétt, húsnæðiskostnaðurinn en þar á eftir koma samgöngurnar. Mig minnir að hann sé orðinn um 16%, meira en maturinn gerir. Ef okkur tekst að lækka samgöngukostnað heimilanna felst í því verulegur árangur.

Í þriðja lagi á að stuðla að samdrætti og losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, og síðan, sem er það sem hv. þingmaður víkur að, að skapa forsendur til frestunar á stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum með öflugri almenningssamgöngum sem dragi úr vexti bílaumferðar á stofnbrautakerfinu á annatímanum. Með öðrum orðum, þetta er stórátak, þetta er í rauninni stórframkvæmd til að efla og bæta samgöngur á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu. Við erum að þessu leyti að brjóta blað. Að mínu mati er verið að stíga mjög mikilvægt skref til að bæta og efla samgöngur í þessum landshluta, gera þær ódýrari og vistvænni.