140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það hlýtur að skipta meginmáli þegar um samgönguáætlun er að ræða, hvort heldur er sérstakur samningur á milli ríkisins og Vegagerðarinnar annars vegar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hins vegar eða önnur samgönguáætlun, að fyrst og síðast sé hugað að öryggi í umferðinni. Kortlagðir hafa verið þeir vegir utan höfuðborgarsvæðisins sem eru verulega áhættusamir og sömuleiðis gatnamót á höfuðborgarsvæðinu sem eru verulega áhættusöm og ég held að við þurfum, hvort sem okkur hugnast sá samningur sem hér er verið að gera eður ei, að leggja áherslu á að fækka þeim umferðarmannvirkjum, gatnamótum og svæðum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verulega hættu í för með sér og hafa haft hingað til. Það hlýtur að vera grunnurinn að bættu samgöngukerfi fyrir alla, hvort heldur eru borgarbúar eða íbúar höfuðborgarsvæðisins í næstu sveitarfélögum.

Hér hefur líka verið dregið fram að í þeim samningi sem Vegagerðin hefur gert við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er lögð áhersla á almenningssamgöngur. Það hlýtur að vera fólgið í tvennu, virðulegur forseti. Í fyrsta lagi bættum lífsgæðum borgaranna, meðal annars með tilliti til þess að við notum almenningsvagna sem eru nýrri og ganga fyrir öðru eldsneyti en nú er. En það hlýtur líka að vera með það í huga að auka lífsgæði þeirra sem búa í sveitarfélögum í kring, og að þeir geti farið á milli sveitarfélaga en ekki eingöngu alltaf með viðkomu í Reykjavíkurborg. Það hlýtur að vera einn punktur sem Vegagerðin og þessi sveitarfélög þurfa að leggja áherslu á.

En ég ítreka, virðulegur forseti: Öryggi í umferðinni hlýtur alltaf að vega þyngra en að maður komist hraðar á milli staða, en að dregið sé úr þeim tíma sem fer í að fara á milli staða. Öryggi í umferðinni er grundvallaratriði.