140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einsdæmi að hingað komi hv. þingmenn frá Reykjavík og suðvesturhorninu og fagni því sérstaklega að búið sé að semja um að engir fjármunir fari í vegaframkvæmdir á þessu svæði. Ég hvet menn til að fylgjast með því. Varðandi það hvernig þetta kemur niður á sveitarfélögunum þá kemur þetta langverst niður á Reykjavík annars vegar og Hafnarfirði hins vegar. (Gripið fram í: Er Sjálfstæðisflokkurinn …)

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni: Af hverju er ekki farið í úrbætur á hættulegustu stöðunum? Af hverju ekki? Þeir væru jafnhættulegir þó menn þrefaldi almenningssamgöngurnar, þó þeir fjórfölduðu þær. (Gripið fram í: Nei.) Það mundi engu breyta um að þetta eru hættulega hönnuð umferðarmannvirki. Þar verða mestu slysin. Hér koma hv. þingmenn eins og Álfheiður Ingadóttir og gera lítið úr slysatölum á höfuðborgarsvæðinu. Það þykir mér alvarlegt. (Gripið fram í.) Ég var að vonast til þess að við mundum ræða hlutina eins og þeir eru. Virðulegi forseti, ég þekki Houston og að bera þessar borgir saman er algerlega fráleitt. Þetta snýst ekki um annað en að beina athyglinni að þessum hættulegu punktum sem hæstv. ráðherra þekkir, vegna þess að undir hann heyrir stofnun sem er sífellt að vekja athygli á þeim, og útrýma þeim stöðum. Það skiptir engu máli hversu margir nota almenningssamgöngur. Þetta eru hættulegir staðir, virðulegi forseti. [Frammíköll í þingsal.] Við verðum að fara að vinna faglega. Ég vek athygli á því að ef menn vilja lækka kostnað og minnka gróðurhúsalofttegundir er það hægur vandi. Menn gera það með því að lækka gjöld á bifreiðar vegna þess að nýju bifreiðarnar eyða miklu minna, þær menga miklu minna og það væri fljótlegasta leiðin til að ná þeim tveim markmiðum, annars vegar að lækka kostnaðinn fyrir heimilin og hins vegar að minnka útstreymið.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hér komu hv. þingmenn Samfylkingarinnar og VG og fögnuðu því sérstaklega að nú væri Reykjavík tekin út (Forseti hringir.) og sagt við Reykjavíkurborg: Þið fáið ekki neitt næstu tíu árin. (Gripið fram í.)