140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er stundum sagt að undantekningin sanni regluna. Ég held að það sé að sannast núna. Það var mjög ánægjulegt að vera við Höfða í Reykjavík á sólríkum degi 7. maí síðastliðinn þar sem fulltrúar allra sveitarfélaganna á suðvesturhorninu, Reykjavíkurborgar, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Álftaness, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, voru allir einhuga um að fagna þessu mikla framtaki sem við erum að ráðast í á næstu tíu árum. 1 milljarður á ári, 900 millj. kr. fara beint í almenningssamgöngurnar, 100 millj. kr. eða 10% til að efla samgöngur við byggðakjarna í næsta nágrenni við þéttbýlið hér. Allir fögnuðu þessu og töldu þetta verða mikla bót.

Hv. málshefjandi vék að slysum í umferðinni og allar slíkar ábendingar á að taka mjög alvarlega. Hann vék sérstaklega að hjólreiðaslysum. Á næstu tíu árum samkvæmt samgönguáætlun sem liggur núna fyrir þinginu, er gert ráð fyrir að verja 2,2 milljörðum, um 220 millj. kr. á ári til að bæta aðstæður hjólreiðafólks og þar með, vænti ég, draga úr slysahættu að þessu leyti. Nú er ég ekki með það á hraðbergi hvað ein mislæg gatnamót kosta. Eigum við að segja milljarður? Ég get trúað að það sé á því bili. Ef við stæðum frammi fyrir þeim tveimur valkostum, að setja milljarð í mislæg gatnamót eða ráðast í það stórátak sem við erum að gera núna, þá held ég að borgarbúar og aðrir íbúar á þéttbýlissvæðinu í Hafnarfirði, Kópavogi (Forseti hringir.) og í þessum sveitarfélögum ættu ekki í nokkrum vandræðum með að velja. Þeir mundu vilja fara þá leið sem sveitarfélögin (Forseti hringir.) á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu og ríkisstjórnin hafa ákveðið að fara.