140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[14:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Íslendingar gerðust aðilar að Schengen-samstarfinu árið 2001. Ég tók þátt í umræðu um það á sínum tíma og var ekki alls kostar sáttur við að við gerðumst aðilar, svo ekki sé tekið dýpra í árinni, það má taka meira að segja taka nokkuð djúpt í árinni hvað það snertir.

En Schengen hefur þróast og er að þróast og á eftir að þróast. Við þurfum að taka þátt í þeirri umræðu og horfa til þess sem uppi er á teningnum annars staðar og meta málin inn á við að sama skapi.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji tímabært að taka upp íslenskt landamæraeftirlit. Ég tel að tímabært sé að styrkja svo sem unnt er eftirlit á landamærunum og hefur ráðuneytið þegar hafið vinnu við stefnumótun á því sviði með það fyrir augum að styrkja lögregluna við landamæraeftirlit. Við þá vinnu verður höfð hliðsjón af niðurstöðum vinnuhóps sem hefur lagt fram tillögur um hvernig við eigum að bera okkur að í þessu efni.

Ég vil geta þess að hjá lögreglunni á Suðurnesjum er mikil þekking á landamæravörslu og það lögreglulið er í góðu samstarfi við önnur lögreglulið og tollgæsluna. Þar kemur kannski að því jákvæða sem er að finna í Schengen-samstarfinu, það er samvinna lögregluliða, því að það er eitt að kíkja á vegabréf og annað vita eða hafa upplýsingar um eftir hverju leitað er. Þar eru náttúrlega kostirnir í Schengen-samstarfinu. Það sem við höfðum við það að athuga á sínum tíma, við sem gagnrýndum það mest, var tilkostnaðurinn við að gerast hlið að Evrópu gagnvart Bandaríkjunum og öðrum ríkjum þar sem fólk er á leið inn í Schengen-svæðið um okkar hlið.

Kannski er svolítill ruglingur hjá mörgum sem gagnrýna Schengen þegar þeir telja að Schengen sé ástæðan fyrir því að hér er allt opið upp á gátt. Staðreyndin er sú að það er EES sem veldur því, því að einn þátturinn, grunnþátturinn í EES-samstarfinu er frjáls för fólks. Þar er hin raunverulega opnun.

Schengen kveður hins vegar á um að menn fari eftirlitslaust eða geti gengið eftirlitslaust inn um hliðið hver hjá öðrum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að í stað þess að eftirlit sé með borgurum innan landamæranna, sem er mér mjög ógeðfelld tilhugsun, sé miklu heppilegra að hafa eftirlitið á landamærunum því að eftirlit á að vera vegna þess að það eru ýmsir aðilar á ferð og flugi um heiminn sem hafa misjafnt mjöl í pokahorninu. Það er nú bara staðreyndin.

Hvernig ég telji að þróunin verði á næstu árum? Ég held að Schengen eigi eftir að þróast á þann veg að einstök ríki muni taka sér það vald að hafa öflugra eftirlit á eigin vegum. Við þekkjum það náttúrlega að hluta til sjálf hvað við höfum gert gagnvart aðilum á borð við Hells Angels sem við höfum stöðvað, vísað umsvifalaust úr landi og reyndar fengið staðfestingu á því fyrir dómstólum að slíkt er í góðu samræmi við íslensk lög og við höfum ekki fengið aðfinnslur frá Schengen eða neins staðar að.

Önnur ríki eins og Noregur hafa verið að taka upp eftirlit á eigin vegum þótt þau eigi aðild að Schengen-samstarfinu. Við þurfum að horfa til þess sem þessi ríki og aðrir gera og meta að auki sjálfstætt hvernig við viljum hafa þetta.

Á sínum tíma kom fram þingsályktunartillaga, það var hv. þm. Árni Johnsen sem var 1. flutningsmaður að henni. Þar var óskað eftir því að gerð yrði allsherjarúttekt á þessum málum. Í reynd má segja að unnið sé að slíkri úttekt á vegum þeirrar nefndar sem ég vísaði til í upphafi. Sú vinna er í stöðugu ferli hjá okkur í innanríkisráðuneytinu sem hefur á að skipa mjög góðum sérfræðingum um þessi málefni. En ef þingið vill fara í frekari skoðun á þessu, og ég hef lýst vilja til að styðja slíkt sjálfur, þurfum við náttúrlega að láta fjármuni renna til slíks verkefnis. Það væri þá á hendi Alþingis að taka ákvörðun um slíkt.