140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og ég fagna því að þingmenn, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, óski þess að ráðherra flytji okkur skýrslu um þetta efni.

Þann 30. nóvember 2011 lagði hv. þm. Bjarni Benediktsson ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fram beiðni um skýrslu til innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið. Það er þess vegna athyglisvert að ráðherrann nefndi að ef þingið vildi nánari úttekt þyrfti það að biðja um hana. Slík beiðni liggur einfaldlega fyrir og hefur gert það frá því í nóvember.

Í greinargerðinni með skýrslubeiðninni segir að nauðsynlegt sé að meta stöðu Íslands í Schengen-samstarfinu og ástæðan sé sú að ein tíu ár eru síðan samkomulagið gekk í gildi hér á landi og komið hafa fram ýmsar gagnrýnisraddir. Því sé eðlilegt að skoða og gera úttekt á því hverjir séu helstu kostir og gallar við samstarfið fyrir Íslendinga sem og hver sé ávinningur þjóðarinnar af þátttökunni í þessu verkefni, samanborið við að standa utan samkomulagsins. Þessi skýrslubeiðni liggur fyrir og ég geri ráð fyrir að verið sé að vinna að því að svara henni í ráðuneytinu.

Meðal þess sem óskað var eftir að ráðherrann tæki saman fyrir okkur í þinginu í þessari beiðni, var að í fyrsta lagi að varpa ljósi á kosti og galla samstarfsins, í öðru lagi áhrif á framkvæmd landamæravörslu og eftirlit með alþjóðlegum glæpamönnum og í þriðja lagi áhrif vegna stækkunar Schengen-svæðisins. Í fjórða lagi ætti ráðherrann að varpa ljósi á hvaða sérstöku hættur ráðherrann teldi að huga yrði að og í fimmta lagi veita upplýsingar um kostnað vegna þátttöku í samstarfinu samanborið við kostnað vegna landamæravörslu ef við stæðum utan Schengen.

Þetta er allt gott og blessað, þetta liggur fyrir og það hlýtur að vera verið að vinna að þessu uppi í ráðuneyti. Ég hlakka einfaldlega til að ráðherrann flytji okkur skýrslu. Við megum ekki gleyma því að við höfum aðgang að ákveðnum upplýsingakerfum í gegnum þetta samstarf og það er nauðsynlegt að við gerð skýrslunnar verði lagt mat á hversu mikilvægt það er lögreglunni (Forseti hringir.) að fá þær upplýsingar og að það liggi fyrir í þinginu.