140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að þetta mál skuli vera komið hér á dagskrá vegna þess að ekki er víst að þingmeirihluti sé fyrir því í þinginu. Þessi IPA-mál sem liggja nú tvö fyrir og á að ræða hér í dag voru tekin úr hv. utanríkismálanefnd með miklum brögðum eins og kom fram í fréttum, en ég mun fara betur yfir það í ræðu minni á eftir.

Það er athyglisvert að nú skuli vera gerð tilraun til að reyna að lögfesta hér samning sem fulltrúi íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirrituðu þann 8. júlí 2011 um að Íslendingar mundu þiggja úr hendi Evrópusambandsins allt að 5 milljarða íslenskra kr. Út frá því sem stendur í frumvarpinu, sem gengur aðallega út á skattundanþágur þeirra aðila sem koma og vinna þessi verk, langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að hægt er að leggja fram frumvarp sem gerir svo hróplega upp á milli (Forseti hringir.) aðila innan ESB og utan ESB eins og við hér á landi erum og íslenskir verktakar?