140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:20]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég tók þátt í umræðu um þetta frumvarp sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd en er hvorki með eigið nefndarálit né á öðru nefndaráliti. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að leggja ekki fram mitt eigið nefndarálit er sú að ég hélt að stjórnarmeirihlutinn mundi ekki taka þetta mál til umræðu í þinginu vegna þeirrar óvissu sem ríkir um það hvort umsóknarferlinu verði nokkurn tíma lokið, óvissu sem skapaðist eftir að ljóst varð að umsóknarferlið mun dragast fram yfir næstu kosningar. Auk þess tel ég óljóst hvort meiri hluti sé í þinginu fyrir samþykkt þessa frumvarps.

Ég vil því, frú forseti, skora á meiri hlutann að sýna heiðarleika gagnvart ESB og fresta samþykkt þessa frumvarps þar til ljóst er orðið að þjóðin vill í raun og veru klára umsóknarferlið. Það skýrist ekki fyrr en í næstu kosningum, sem þjóðin vill reyndar fá sem fyrst.

Ég tek undir gagnrýni sem heyrst hefur frá Evrópuþinginu um að ekki eigi að veita ríkri þjóð eins og Íslendingum þróunaraðstoð í formi IPA-styrkja. Við höfum víst ekki heldur verið nógu viljug að mati margra Evrópuþingmanna að koma skuld fyrrverandi eigenda gamla Landsbankans yfir á skattgreiðendur. IPA-styrkirnir voru innleiddir til að aðstoða fátækar þjóðir Austur-Evrópu við að byggja upp evrópskt stjórnsýslukerfi eftir hrun múrsins. Frú forseti. Við eigum að sýna snefil af sjálfsvirðingu og hafna IPA-styrkjunum þannig að ESB geti nýtt þá til þróunaraðstoðar í raunverulegu þróunarlandi.

Frú forseti. Ég hef áhyggjur af samkeppnisstöðu innlendra aðila í samkeppni við svokallaða ESB-verktaka. Frumvarpið innleiðir sérreglu fyrir þá sem kallast ESB-verktakar og eru hvorki heimilisfastir né búsettir hér á landi, sérreglu sem felur í sér mismunun milli þeirra sem eru hér búsettir og annarra sem vinna fyrir ESB í gegnum IPA-verkefni en eru skráðir með búsetu annars staðar. Mismunun er nokkuð sem hefðbundnir jafnaðarmannaflokkar sjá rautt yfir og berjast gegn en ekki Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem reynir af mikilli kappsemi að liðka hér fyrir þannig að Ísland aðlagist sem mest ESB áður en til ESB-aðildar kemur.

ESB-verktakar munu, ef fyrirliggjandi frumvarp verður samþykkt, geta flutt inn vörur án aðflutningsgjalda til að nota í þessi IPA-verkefni og þegar verkefninu er lokið geta þessir ESB-verktakar auðvitað selt vöruna á mun lægra verði en Íslendingar selja sambærilegar vörur á. Samkeppnisstaða íslenskra aðila með sambærilega vöru verður því skert.

Síðan er hætta á því þegar verið er að keppa um IPA-verkefni að ESB-verktakar undirbjóði i íslenska sérfræðinga og íslenska verktaka á þeim forsendum að ESB-verktakarnir greiða ekki skatta hér á landi heldur skatta í heimalandinu sem gætu verið á mun lægra stigi en almennt gerist í Evrópu og þá sérstaklega í Norður-Evrópu. Þessir ESB-verktakar eru því í betri aðstöðu til að bjóða fram vinnu sína á lægri launum en íslenskir aðilar sem munu vilja taka að sér þessi verkefni og þurfa að borga mun hærri skatta og taka tillit til þess í boði sínu á að framkvæma viðkomandi IPA-verkefni.

Ég vil jafnframt geta þess að hægt er að ná niður kostnaði í IPA-verkefnum með því að ráða til starfa ESB-verktaka sem koma frá löndum þar sem skattar eru umtalsvert lægri en hér á landi. Þetta er reyndar vandamál sem ég þekki mjög vel úr fræðaheiminum en þar eru einmitt ESB-styrkir. Mikilvægt er að reyna að ná kostnaði niður og sýna umtalsvert vinnuframlag á sem lægstum kostnaði. Það er oft og tíðum ekki hægt nema hafa mun fleiri sérfræðinga frá láglaunalöndum með lægri skatta en Norðurlandabúar.

Þetta vandamál með skerta samkeppnisstöðu þeirra sem eru búsettir í landinu þar sem framkvæma á IPA-verkefnið og hinna sem eru ESB-verktakar í IPA-verkefnunum var ekki til staðar í Austur-Evrópu, en það var fyrir Austur-Evrópulönd sem IPA-verkefnunum var komið á fót. Ég tel því að ekki sé enn búið að aðlaga þetta IPA-verkefnakerfi að norrænum aðstæðum þar sem laun eru há og skattar háir. Samkeppnisstaða íslenskra sérfræðinga er því skert samanborið við ESB-verktaka, sérstaklega ef þeir eru búsettir á láglaunasvæði og lágskattasvæði.

Virðulegi forseti. Ég skora á meiri hlutann að sýna heiðarleika gagnvart ESB og hafna þróunaraðstoð sem felst í þessum IPA-styrkjum, IPA-verkefnum. Við vorum útskrifuð af lista þróunarlanda um miðjan áttunda áratuginn og við eigum að halda okkur sem lengst frá þeim lista. Við eigum því að hafna þessum styrkjum og höfnun þeirra gerir samþykkt þessa frumvarps óþarfa, frú forseti.