140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Mig langar að velta upp einni spurningu varðandi tilganginn með því að IPA-styrkirnir komi inn í samfélag okkar. Í mínum huga lítur það þannig út að vissulega sé verið að veita styrki frá Evrópusambandinu í verkefni sem eru mörg hver mjög mikilvæg. Ég tel að við getum flest verið sammála um að það sé mjög gott og skemmtilegt að veita fé til flestallra þessara verkefna ef ekki allra. En gætum við ekki, að mati hv. þingmanns, verið svolítið sjálfstæð og metið það sjálf til hvaða verkefna við viljum leggja fjármuni? Við gætum þá lagt til fjármuni í fjárlögum ef svigrúm er til þess frekar en í gegnum Evrópusambandið, sem er að mínu viti augljóslega gert til að liðka fyrir því að almenningsálitið á Íslandi breytist á þann veg að þeir sem hafa kosningarrétt muni verði jákvæðari í garð Evrópusambandsins í komandi kosningum um aðildarsamning en þeir hafa verið hingað til.