140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svarið. Peningar eru hreyfiafl og geta haft áhrif á afstöðu manna til ýmissa hluta. Ég tel að umræðan í þinginu væri talsvert önnur ef það væru ekki fjármunir frá Evrópusambandinu sem verið væri að veita hingað inn heldur til dæmis frá Kína sem er að sækja í sig veðrið varðandi samskipti við Evrópu. Ég skil ekki hvers vegna flokkur eins og fyrrverandi þingflokkur hv. þingmanns, Vinstri grænir, getur fellt sig og talað svo mikið fyrir þessu ferli eins og hann gerir í þessari umræðu.

Ræða hv. þingmanns var annars mjög athyglisverð, sérstaklega varðandi skattana og það að við ættum kannski frekar að einbeita okkur að því að lækka skatta en að taka inn mál eins og þetta þar sem verið er að umbuna ákveðnum hópi evrópskra verktaka mögulega á kostnað innlendra verktaka, miðað við umsögn Félags löggiltra endurskoðenda.

Þar sem hv. þingmaður á sæti í nefndinni sem fjallar um málið væri ágætt að fá aðeins fram hjá henni hver er afstaða þeirra sem beittu sér fyrir að þetta mál kæmi inn í þingið og yrði samþykkt, til athugasemda endurskoðendanna. (Gripið fram í.)