140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég var ekki beint á móti þessum IPA-styrkjum þegar ég sat í þingflokki Vinstri grænna. Það var eiginlega ekki fyrr en ég tók þátt í umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd um málið sem ég tók afstöðu gegn styrkjunum, ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga að umsóknarferlið mundi ná fram yfir næstu kosningar. Mér finnst það algerlega óábyrgt að þiggja styrki sem hluta af umsóknarferli sem verður mögulega aldrei klárað. Mér finnst það mjög óheiðarlegt og vonast til að stjórnarmeirihlutinn og ekki síst þingmenn Vinstri grænna skoði hug sinn til málsins í ljósi þess að ekki á að klára þetta umsóknarferli á næstunni.

Við ræddum mjög mikið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þær athugasemdir sem komu frá Félagi löggiltra endurskoðenda, enda eru þær mjög áhugaverðar og taka beint á vandamálum sem komið hafa upp í rannsóknarverkefnum sem ESB hefur styrkt. Þessi vandamál hafa ekki farið hátt af því að það eru svo fáir sem hafa fengið þessa styrki. En vandamálin eru vissulega til staðar og tryggja þarf að unnið sé gegn þeim. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að bæta samkeppnisstöðu innlendra aðila gagnvart ESB-verktökum. Það sé bara einfaldlega (Forseti hringir.) of flókið mál skattalega séð.