140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:43]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp umræðu um það heiti sem umsóknarferlið ber á ensku sem er „accession“. Var það alltaf þýtt sem aðlögun fyrir Austur-Evrópu en íslensk stjórnvöld hafa kosið að þýða það sem umsóknarferli. En ég get ekki betur séð en að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sjái þetta sem „accession“, meira eins og aðlögun. Ég get skýrt frá því í ræðustól að ég áttaði mig ekki á því þegar ég samþykkti að senda inn ESB-umsókn að við værum að fara í nákvæmlega sama ferli og Austur-Evrópa eins og er mjög skýrt með þessum IPA-styrkjum. Það var aldrei meiningin að samþykkja einhverja ESB-umsókn sem færi í austur-evrópskt ferli. Ég taldi okkur vera að fara í norskt umsóknarferli.

En að núna séu komin fram tvö þingmál þar sem verið er reyna að fá þingið til að samþykkja sérreglur fyrir ESB-verktaka sem taka þátt í þessum IPA-styrkjum og þá í leiðinni að samþykkja að taka við þessum styrkjum er auðvitað bara staðfesting á því að við fórum inn í austur-evrópskt umsóknarferli en ekki norskt.