140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Talsvert hefur verið talað í þessu máli um að við séum í aðlögunarferli að Evrópusambandinu en ekki aðildarferli. Í umræðunni frá því að umsóknin var lögð fram hefur verið mikið gert úr þessu. Þeir sem samþykktu þessa umsókn harðneita því hér flestir — þó ekki allir — að við séum í aðlögunarferli. Ég skil einfaldlega ekki til hvers þeir eru að því vegna þess að það er öllum mönnum ljóst sem lesa gögn, lesa heimasíðu Evrópusambandsins, að við erum í aðlögunarferli. Ég skil ekki að þeir sem styðja það að við séum í þessu aðlögunarferli skuli ekki einfaldlega viðurkenna það og segja það hreint út við fólk að við séum í því. Þeir einstaklingar og þeir hv. þingmenn sem eru þeirrar skoðunar hljóta að vilja ganga í Evrópusambandið, annars hefðu þeir varla verið að sækja um. Ég tel að það sé fullkomin tímasóun að vera í þessum hártogunum og hvet þá hv. þingmenn sem vilja ganga í Evrópusambandið og fylgja þeirri umsókn sem þeir sjálfir hafa lagt fram til að koma hreint fram og segja þjóðinni og okkur hér satt. Við erum í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Þetta mál er eitt skýrasta dæmið um það og svo stendur það einfaldlega í gögnum bæði á heimasíðu Evrópusambandsins og fleiri stöðum að þetta er aðlögunarferli og um það þarf ekkert að rífast.

Frú forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að ESB-verktakar verði undanþegnir skattskyldu; aðflutningsgjöld af vörum sem ESB-verktakar flytja inn verði felld niður og ESB-verktakar verði undanþegnir virðisaukaskatti, tekjuskatti, útsvari og staðgreiðslu. Hin svokallaða fjárhagsaðstoð ESB við Ísland með stuðningsaðgerðum í gegnum þetta IPA-fjárhagskerfi verður þannig undanþegið hvers kyns skattskyldu. Þetta frumvarp er svo lagt fram samhliða þingsályktunartillögu um staðfestingu rammasamnings um IPA-styrki sem undirritaður var af íslenskum stjórnvöldum 8. júlí 2011. Frú forseti, það er rétt að gera athugasemd við það að kannski hefði verið hægt að koma með þetta frumvarp fyrr inn í þingið fyrst það er að verða ár síðan þessi rammasamningur var undirritaður.

Það er einfaldlega ekki hægt annað, frú forseti, en að ræða þetta mál að einhverju leyti í samhengi vegna þess að í þingsályktunartillögunni kemur fram markmið IPA-kerfisins og auðvitað þarf að hafa það í huga þegar þetta mál er rætt. Markmiðið er að styrkja innviði umsóknarríkja að ESB með uppbyggingu stofnana, eflingu milliríkjasamstarfs og styrkingu efnahags- og félagslegrar þróunar sem og byggðaþróunar. ESB gerir þá kröfu að styrkirnir renni alfarið til slíkra verkefna en ekki til greiðslu skatta, tolla eða annarra gjalda og þess vegna er þetta frumvarp hér komið fram. Út frá þessu getum við einfaldlega dregið þá ályktun að þessir styrkir séu ætlaðir til þess að aðlaga íslenskan rétt að rétti Evrópusambandsins. Við sjáum þess stað í verkefnalistanum ef við skoðum verkefni sem hafa fengið þessa styrki. Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á er verið að aðlaga flokkun dýra- og fuglategunda sem vistgerða til samræmis við tilskipanir Evrópusambandsins. Þarna stendur þetta einfaldlega svart á hvítu og við þurfum ekkert að rífast um það.

Þetta frumvarp hefur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagt til að verði samþykkt óbreytt. Gerðar hafa verið athugasemdir við það og einna alvarlegastar að mínu mati — fyrir utan efni málsins sem ég er algjörlega á móti vegna þess að ég er á móti aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að stjórnsýslu Evrópusambandsins því að ég tel að við eigum ekki erindi í Evrópusambandið og okkar hagsmunum sé betur borgið utan þess — koma frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Lítillega er vakin athygli á því í nefndaráliti minni hlutans frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Tryggva Þór Herbertssyni. Í því nefndaráliti segir að Félag löggiltra endurskoðenda telji að frumvarpið kunni að mismuna innlendum aðilum sem veita þjónustu í samkeppni við þá sem njóta hinna skattalegu ívilnana. Þá hafi félagið gagnrýnt notkun einstakra hugtaka í frumvarpinu. Ég tel, eins og þeir hv. þingmenn sem leggja þetta nefndarálit fram, að þetta séu alvarlegar athugasemdir sem bregðast þurfi við. Þess vegna leitar maður auðvitað eftir upplýsingum um það hvort meiri hlutinn, sem styður að þetta frumvarp fari óbreytt í gegnum þingið, hafi farið yfir þessar athugasemdir Félags löggiltra endurskoðenda. Ég get ekki séð það í nefndarálitinu að reynt sé að svara þessum athugasemdum að öðru leyti en því að lítillega gæti verið fjallað um þær á blaðsíðu 2, með leyfi forseta:

„Fram kom að þessi sjónarmið hefðu verið rædd við undirbúning frumvarpsins og að mat fjármálaráðuneytisins hefði verið að of viðurhlutamikið væri að ákvarða andlag endurgreiðslna í skattframkvæmd vegna vöru sem seld væri innan lands. Þá væru skilyrði þess að vera ESB-verktaki almenn og hlutlæg með tilliti til heimilisfesti eða fastrar starfsstöðvar umsækjanda.“

Að öðru leyti sé ég þess ekki stað og þar sem ég heyrði hv. þm. Helga Hjörvar ekki fara sérstaklega í þetta og ekki er heldur nokkur annar úr meiri hlutanum á mælendaskrá þá vantar mig upplýsingar um það hvernig meiri hlutinn fjallaði um þetta í nefnd. Því leyfði ég mér að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd, út í þetta atriði. Auðvitað er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að sá hv. þingmaður sem ekki stendur að nefndarálitinu svari þessum spurningum. Því væri ágætt ef aðrir hv. þingmenn sem standa að þessu nefndaráliti gætu komið og svarað því hvernig umfjöllunin var í nefndinni og hvers vegna ekki var brugðist við athugasemdum endurskoðenda.

Ég ætla að fara aðeins í þessar athugasemdir. Gerðar eru athugasemdir við 3. og 4. gr. en samkvæmt þeim á ESB-verktaki að fá aðflutningsgjöld felld niður á innflutningi á vörum sem keyptar eru fyrir fjármagn samkvæmt ESB-samningi og eru í beinum tengslum við verkið. Ef ESB-verktakinn kaupir vöruna hér á landi er eingöngu virðisauki endurgreiddur eða hann talinn til innskatts. Með þessu myndast ójöfnuður milli innfluttra vara og vara sem keyptar eru af íslenskum aðilum sem nemur aðflutningsgjöldum. Þetta er athugasemd sem ég tel að nefndin hefði átt að fjalla örlítið meira um en mér sýnist hún hafa gert.

Þá gerir Félag löggiltra endurskoðenda athugasemdir við það að hugtök í frumvarpinu séu óskýr. Það er auðvitað þannig þegar við erum að tala um skatta og sérstaklega afslætti, niðurfellingu eða undanþágu frá sköttum þá þarf umhverfið að vera mjög skýrt. Það er grundvallarregla, mundi ég ætla. Þess vegna hefði verið ástæða fyrir meiri hluta nefndarinnar að koma að einhverju leyti til móts við athugasemdir félagsins og reyna að minnsta kosti að skýra þessi hugtök í þeim tilgangi að halda skattumhverfinu hér á landi skýru.

Þegar verið er að gefa ívilnanir á þessum greiðslum, m.a. í þá átt að mati Félags löggiltra endurskoðenda að ójöfnuður gæti skapast milli innlendra aðila og ESB-verktaka, og ekki er gerð tilraun til að skýra þetta umhverfi vekur það auðvitað spurningar um hvort menn séu meira að keppa við tímann en að vanda vinnubrögðin. En ég fæ ekki, eins og ég segi, svör við því þar sem enginn úr meiri hlutanum ætlar sér að tala og svara þessum spurningum, miðað við mælendaskrá.

Hæstv. forseti. Félag löggiltra endurskoðenda gerði líka athugasemd við 5. gr. frumvarpsins þar sem segir að ESB-verktakar sem ekki eru heimilisfastir eða hafa fasta starfsstöð hér á landi séu undanþegnir skattskyldu og greiði því hvorki tekjuskatt né útsvar af þeim tekjum sem samningurinn skapi. Ekki er skýrt hvort kveðið sé á um að ESB-verktakar myndi ekki fasta starfsstöð og öðlist heimilisfesti hér á landi eða hvort ákvæðið eigi eingöngu við um þá aðila sem dvelja hér skemur en sex mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Um hvort er verið að tala? Er ekki ástæða til að svara þessari athugasemd? Að mati félagsins getur verið að þetta hafi þau áhrif að menn vilji frekar ráða erlenda aðila en innlenda þar sem ESB-verktakinn þarf ekki að greiða tekjuskatt af sínum tekjum en innlendi aðilinn þarf að gera það. Þess vegna er ljóst að ESB-verktakinn getur boðið lægra verð í þessi verkefni. Að mati félagsins verða þessar reglur, verði þær samþykktar óbreyttar samkvæmt frumvarpinu, til þess að veikja samkeppnisstöðu innlendra aðila.

Af þessu ber okkur öllum hér að hafa áhyggjur og spyrja okkur spurninga. Er þetta þess virði? Er það þetta sem við viljum? Erum við tilbúin að gera hvað sem er til að greiða fyrir því að aðildarumsókn að ESB hljóti samþykki hér á landi? Ég segir einfaldlega nei, ég hef ekki áhuga á því og tel að við séum með þessu að ganga allt of langt.

Ég vek enn og aftur athygli því að það er undarlegt að þeir sem skrifaðir eru fyrir nefndaráliti meiri hlutans og þeir sem studdu aðildarumsóknina vilji ekki koma og gera grein fyrir því hvernig þeir rökstyðja þetta. Sérstaklega vísa ég þar til þingmanna Vinstri grænna sem að mínu viti eru að ganga gegn, eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur vísað til, ályktunum flokksráðs Vinstri grænna, svo ég hafi það rétt eftir.

Frú forseti. Í nefndaráliti minni hlutans er vakin athygli á afstöðu Evrópuþingsins til þeirrar þróunaraðstoðar sem verið er að veita Íslandi með þessum styrkjum og því að menn hafi gagnrýnt það þar sem Ísland falli í rauninni ekki þar undir. Þetta er athyglisverður punktur en auðvitað getur enginn hér innan dyra upplýst okkur um það hvort það hafi eitthvað verið rætt við forsvarsmenn Evrópusambandsins hvers vegna við hljótum þessa þróunarstyrki þegar hluti Evrópuþingsins er andvígur því. Við erum í allt annarri stöðu en margar aðrar þjóðir sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu á undanförnum árum, sem aðallega hafa verið austur-evrópskar þjóðir, og væri því fróðlegt ef einhver úr nefndinni gæti komið og rætt þetta atriði við okkur sem tökum þátt í þessari umræðu.

Jafnframt er birtur listi með nefndaráliti minni hlutans yfir þá aðila sem hafa fengið styrki út frá þessum gögnum. Listinn er birtur í fylgiskjali I með nefndaráliti minni hlutans. Þetta er minnisblað sem utanríkisráðuneytið dreifði og er einfaldlega yfirlit yfir styrkhæf verkefni sem stjórnvöld hafa samþykkt vegna ársins 2011. Það er mjög athyglisvert að fara yfir þessi verkefni. Þau eru ágæt og væri vel þess virði að skoða að fara í sem flest þeirra. Ég vek til dæmis athygli á Kötlu jarðvangi, þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið, sem er mjög gott og fróðlegt og skemmtilegt verkefni. En mín afstaða er sú að við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið eða sækja um aðild að því til að geta veitt styrki í verkefni sem þessi. Við gætum einfaldlega metið það svo hér í þinginu að ástæða væri fyrir þingið sjálft að leggja það til í fjárlögum að styrkja þessi verkefni.

Við vitum öll að þau lönd sem eru aðilar að Evrópusambandinu greiða þangað ákveðin gjöld og síðan úthlutar Evrópusambandið ýmsum styrkjum til aðila í löndum Evrópusambandsins. Það er einfaldlega hægt að sleppa þessum millilið sem Evrópusambandið er og veita styrki til verkefna sem við viljum sjálf styrkja hér heima. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu ef menn geta sammælst um það á þingi. Mér þykir hálfankannalegt að við séum að taka á móti svo viðurhlutamiklu fjármagni frá erlendum aðilum sem er augljóslega til þess hugsað að hafa áhrif á afstöðu okkar sem hér búum og byggjum þetta land til þess hvort við viljum vera aðilar að Evrópusambandinu eða ekki.

Mér finnst einkennilegt að við séum með þetta mál í þinginu í ljósi þess að þingflokkur Vinstri grænna, að því er ég hélt, var á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Frú forseti. Ég tel ekki að margt annað verði sagt um þetta mál í bili. Ég ítreka þá afstöðu mína að ég er á móti þessu máli og mun ekki greiða því atkvæði mitt.