140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Í þessari umræðu er margt þess eðlis að það gefur dálítið skemmtilega nálgun á málið sem liggur undir. Það er alveg ljóst að meðferð málsins hefur verið báðum stjórnarflokkunum mjög erfið, sérstaklega Vinstri grænum því að þeir hafa þurft að kokgleypa fyrri stefnumál sín sem þeir gengu fram fyrir kjósendur með árið 2009. Og þetta hefur einnig verið erfitt fyrir Samfylkinguna vegna þess að það kostar átök að troða þessu niður í kokið á samstarfsflokknum. Maður hefur því ákveðna samúð með báðum þessum stjórnmálaflokkum í þessu efni.

Það sem vekur samt dálitla undrun við þróun málsins er ekki síst sú staðreynd að töluverð breyting hefur orðið á afstöðu einstakra þingmanna hjá Vinstri grænum. Ef maður ber þetta saman við afgreiðsluna um Evrópusambandsaðildina má sjá ákveðnar breytingar frá atkvæðagreiðslu þar sem fimm þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn aðildarumsókninni, en þegar þetta mál þróast lengra standa að minnsta kosti tveir þingmenn úr hópi Vinstri grænna að nefndaráliti um það. Og ef litið er til síðustu fjárlagaafgreiðslu þar sem gert er ráð fyrir 596 millj. kr. styrkjum í þetta mál tekur maður eftir því að hæstv. fyrrverandi ráðherra Jón Bjarnason greiddi atkvæði með þeirri styrkveitingu. Ég er því að inna hv. þingmann eftir sýn hans á þær breytingar sem hafa orðið á afstöðu manna í þingliði stjórnarinnar í þessu ferli og hvort hann geti deilt með mér skoðunum sínum á því (Forseti hringir.) hvað valdi þessari afstöðubreytingu.