140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja þar sem andsvari hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sleppti hér áðan, en í staðinn fyrir að brenna dýrmætum tíma Alþingis í að velta fyrir sér hvað hv. þingmanni Gunnari Braga Sveinssyni þyki og hann haldi um viðhorf fólks í öðrum þingflokkum, þá spurði þingmaðurinn í seinna andsvari um það hvernig viðtökurnar hefðu verið í kjördæminu, hvort hann þekkti til þess. Ég þekki nefnilega mörg dæmi úr mínu kjördæmi og vildi beina athyglinni að kjarna málsins, sem er svo sjálfsagður og fylgir þeirri lýðræðislegu ákvörðun að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu; möguleikinn á að fá þá uppbyggingarstyrki sem kallaðir eru IPA-styrkir.

Ég vil nefna dæmi úr tveimur samfélögum í kjördæmi mínu sem þurfa mjög á því að halda að fá styrki til að byggja upp innviði sína. Annars vegar er um að ræða sveitarfélögin í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra og verkefnið um Kötlu jarðvang. Sótt hefur verið um IPA-styrki og fengið er vilyrði fyrir þeim upp á 90 millj. kr. og hafa sveitarfélögin þurft að afla mótframlags upp á 30 milljónir til að þetta gengi eftir. Þau binda gríðarlegar vonir við þetta verkefni en í þessum sveitarfélögum er mesta fólksfækkun á Íslandi öllu og þau nýta þessa styrki til að efla innviði sína.

Hins vegar er um að ræða Hekluna, Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja. Í stjórn Heklunnar sitja bæjarstjórar allra sveitarfélaga á Reykjanesinu og fulltrúar Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Þverpólitískt samstarf ef út í það er farið og menn vilja skoða það. Þar er sótt annars vegar um styrki til Náms- og rannsóknarseturs Reykjaness og hins vegar til Reykjaness auðlindagarðs, tvö gríðarlega mikilvæg verkefni á Reykjanesinu. Um er að ræða svipuð verkefni fyrir austan Markarfljót eins og ég nefndi áðan.

Þetta er kjarni málsins. Verið er að nýta IPA-styrki í mjög mikilvæg grundvallarverkefni til að byggja upp og efla innviði samfélaga fyrir utan höfuðborgarsvæðið og um Ísland allt sem þurfa svo sannarlega (Forseti hringir.) á því að halda. Þetta er kjarni málsins og um hann eigum við að tala í dag en ekki hugrenningar hv. þingmanns og hvað hann heldur að Vinstri grænir séu að hugsa frá einum degi til annars.